31 maí 2007

Vika

Jæja þá er bara ein vika þangað til við förum í Þjóðleikhúsið og ég er að verða virkilega spenntur. Við munum öll (já eða næstum öll) gista á Duna Guesthouse þá daga sem við verðum fyrir sunnan. Þetta verður alveg rosalega gaman.

Í gærmorgun fékk ég sms frá Unni þess efnis að Hrafnkell A. Jónsson væri dáinn. Hann var búinn að berjast við krabbamein í einhvern tíma og hafði meinið betur síðastliðna nótt. Hrafnkels verður sárt saknað.

En þá að öðru...Oddur Bjarni er allur að koma til í FIFA 2007 og er það bara ágætt. Hann vann nokkra leiki í nótt...tvo. Við reyndar spiluðum ekki lengi því ég var dottlið þreyttur og fór snemma að sofa miðað við hver venjan er orðin.

Í kvöld verður síðan síðasta rennsli áður en við förum suður. Annað kvöld ætlum ég, Jón Gunnar og Oddur að grilla og horfa á England-Brasilía. Það verður bara næs. Ég ætla síðan að vera með Jónatan um helgina og munum við vafalaust fara í Atlavíkina því það spáir frábæru veðri.

30 maí 2007

Mér er illt í puttanum

Jæja þá er sumarið loksins komið. Sólin skín, fuglarnir syngja, fiskarnir hoppa og allir eru bara eitthvað svo glaðir. Ég hlakka mjög til sumarsins og ætla að ferðast alveg helling. Ég ætla að leggja áherslu á að skoða þá staði sem ég á eftir að skoða hér fyrir austan og þeir eru þó nokkrir. Tildæmis á ég eftir að ganga Stór-Urðina og verður það sett í forgang 1. Einnig á ég eftir að skoða svæðið frá Höfn að Djúpavogi og fer það í forgang 1.5...og svo er það náttúrulega fastir liðir eins og venjulega en það eru t.d. Borgarfjörður, Sænautasel, Mjóifjörður, Kárahnjúkar og svo ætla ég að taka hálendisvakt með Björgunarsveitinni.

Við kláruðum að hjakka í gegnum leikritið í gærkveldi og næstu tvö kvöld verðum við með rennsli. Um helgina förum við síðan í að pakka inn leikmyndinni og sendum hana suður á þriðjudag. Það eru níu manns sem eru að fara suður og ætlum við að reyna að fá gistingu á einhverju gistiheimili.

Oddur Bjarni flutti inn til mín í gærkveldi og verður fram að helgi. Við höfum fundið okkur þrusugott hobbý en það er FIFA 2007 leikurinn. Ég tók hann í bakaríið í gærkveldi og var hann ekki sáttur við það...ég fór að sofa klukkan tvö en hann ákvað að æfa sig þannig að hann ætti meiri séns...veit ekki hvað hann var lengi en ég á örugglega von á hörku mótsspyrnu í kvöld.

29 maí 2007

Allt að koma

Æfingar ganga mjög vel hjá okkur og mér fynnst dagarnir líða undarlega hratt. Það er allt í einu kominn þriðjudagur og orðið minna en vika þangað til ég fer suður. Pétur og Steinar Pálmi mættu á fyrstu æfinguna sína í gær og stóðu sig með prýði. Steinar Pálmi verður hljóðmaður hjá okkur en sá sem var með okkur í vetur kemst ekki.

Mér fynnst afþreyingar menningin hérna á Egilsstöðum alveg til skammar. Í fyrrakvöld ætluðum ég, Dandý og Steinunn að skella okkur á kaffihús. Ég var að æfa til ellefu og við fórum á Café Nielsen klukkan hálf tólf en þá var verið að loka staðnum og reka alla út! Nota bene...það var frídagur daginn eftir. Við vorum náttúrulega hissa en ákváðum samt að hengja ekki haus heldur fórum niðrá Hótel Hérað. Þar hittum við fyrir næturvörðinn sem sagði okkur að við gætum fengið okkur skyndikaffi því hótelið myndi loka eftir 20 mínútur! Þá voru góð ráð rándýr en við ákváðu sem sagt að fá okkur skyndikaffi...sem reyndar varð ekki skyndikaffi því næturvörðurinn læsti okkur inni og hleypti okkur ekki út fyrr en klukkan tvö. Þá fórum við aðeins á rúntinn en það var allt steindautt...meira að segja Hetjan var næstum tóm.

27 maí 2007

Gott er að vakna glaður og hress

Þá er Oddur Bjarni leikstjóri kominn austur til okkar og æfingar því formlega hafnar. Fórum í gegnum allt leikritið í gær og það gekk bara mjög vel. Það var reyndar dáldið skrýtið að fara í hlutverkið aftur en mjög gaman.

Í gærkveldi var síðan fagnaðar partý heima hjá Fjólu. Þar var grillað, etið og drukkið fram eftir nóttu. Á grillið var settur þurrkryddaður Jóhannes og rann hann vel ofaní veislugesti...við þökkum Bónus fyrir matinn. Eftirtaldir létu sjá sig í partýinu: Fjóla the Host, Bjössi the Man, Víðir smiður, Una fyrrverandi smiðsfrú, Unnur leikmyndahönnuður, Steinar Pálmi tilvonandi hljóðmaður, Eymundur leikmyndageimir, Evelyn traktorgella, Hollywoodstjarnan, Lóa Leika, Eygló líka, Dr Siggi, Silla gjaldkeri, Sigríður perraskáld, Skotta perraskáldshlustari, Oddur Bjarni leikstjóri, Sigga Lára höfundur, Bára the Saxofón, Guðjón Sigvalda, Lubbi Klettaskáld, Halldóra Malen, Stebbi Ben, Steini Von Höfn og Róbert Fjólusonur. Sem sagt hörkugott partý.

25 maí 2007

13 days

Í dag eru 13 dagar þangað til við sýnum í Þjóðleikhúsinu. Miðasalan fer vel af stað en það er uppselt á fyrri sýninguna. Við fórum í samlestrar-roadtrip í gær en þá keyrðum við á Höfn og til baka...tókst bara mjög vel. Í kvöld ætlum við síðan að fara út í Eiða og fara yfir allt props og búninga. Oddur Bjarni kemur síðan á morgun og þá hefjast æfingar...reyndar bara samlestur á laugardegi og svo æfing á sunnudegi. Svo er það náttúrulega fagnaðarpartý annað kvöld en þá ætlum við að koma saman hjá Fjólu, grilla og skemmta okkur fram eftir nóttu. Geimið byrjar klukkan 21:00 og eru allir velunnarar LF velkomnir.

24 maí 2007

Dáldið leiður

Jamm...þá er leikurinn búinn og hann fór nú ekki vel. Bjargaði öllu að horfa á hann í góðum félagsskap:) Við grilluðum dýrindis mat og drukkum öl og vín...bara asskoti næs.

Partý á laugardagskveldið klukkan 21:00 hjá Fjólu á Brávöllum 12. Þar ætlum við að fagna Listinni að lifa. Allt leikfélagsfólk og áhugafólk um leiklist eða bara allir sem vettlingi geta valdið að mæta og kyssast og knúsast aðeins.

23 maí 2007

Spennustigið

Já það er óhætt að segja að spennustigið hækki með hverri mínútunni. Stórleikur í kvöld...Liverpool-AC Milan. Öllum er hér með boðið í grill til mín klukkan 18.30 en leikurinn byrjar 18.45:D Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir. Fór upp í Fellaskóla áðan og hitta Drífu Sig og spurði hún mig hvort ég ætlaði ekki að koma á tónleika klukkan 18:00. Jónatan á að spila!!! Eftir smá formælingar og fortölur um tímasetninguna fór ég að reyna að skipuleggja tímann...Jónatan á að spila fyrstur þannig að þetta grásleppur. Ég fæ Jón Gunnar bara til að kveikja á grillinu.

Annar samlestur var hjá okkur í gærkveldi og viti menn....við þurftum ekki handrit!!! Eða svona næstum því ekki. Við ætlum að hittast heima klukkan 21 í kveld og svo á að fara í samlestrar road-trip á fimmtudaginn. Þá ætlum við leikararnir að fara á Höfn og lesa saman á leiðinni...þetta er viðurkennd samlestrar aðferð í mörgum löndum og ég veit t.d. að BENELUX löndin hafa gert þetta með góðum árangri.

Byrjað var að reisa leikmyndina í gærkveldi en þar mættu þau Unnur, Pétur, Jón Gunnar, Víðir, Steinar Pálmi, Fjóla og Solla. Unnur sá fram á að þetta væri allt of fjölmennt og sendi þá Steinar og Pétur heim...ég man ekki til að þetta hafi gerst áður hjá leikfélaginu!

Að lokum....You Never Walk Alone

22 maí 2007

Enginn tómatur

Jæja þá erum við formlega byrjuð að æfa Listin að lifa. Við lásum tvisvar yfir handritið í gær og ótrúlegt en satt...við nánast kunnum þetta ennþá. Það er ótrúlegt hvað svona situr lengi í heilabúinu. Við náum vonandi 2-3 samlestrum áður en Oddur Bjarni kemur. Leikmyndin fer upp í kveld þannig að þetta er allt að gerast.

Ég lenti í dáldið skrýtnu síðast þegar ég tók bensín. Bíllinn minn var nánast tómur og ég fór því á bensínstöð og dældi 55 lítrum af bensíni á tankinn...kostaði ca. 6.504 krónur. Síðan rölti ég inn í rólegheitunum og fer í röðina. Fremstur í röðinni var einhver útlendingur sem var greinilega ekki sáttur...hann reifst og skammaðist á þýsku en afgreiðslumaðurinn skildi ekkert...hann sagði bara euro euro eitthvað og alltaf versnaði skapið í þjóðverjanum sem að lokum rétti afgreiðslumanninum pening og rauk síðan blótandi og ragnandi út. Þegar síðan kom að mér spurði afgreiðslumaðurinn hvað hann gæti gert fyrir mig. Ég sagði honum að ég væri með bensín á dælu 5. Afgreiðslumaðurinn horfði þá á mig tómum augum leit síðan á peningakassann og svo aftur á mig....og sagði...Útlendingurinn borgaði fyrir þig!!! Og það sem meira var... útlendingurinn var ekki einu sinni á bíl!!!

21 maí 2007

Hvað er rautt og sést ekki?

Jæja þá er loksins komin sól á Héraði og brosið færist í leiðinni yfir andlit Héraðsmanna. Ég var í fimmtugsafmæli klukkan níu í morgun en hann Sverrir Gestsson er búinn að lifa af í hálfa öld...geri aðrir betur...eða já pabbi minn hefur gert betur því hann verður sjötugur 18. júní...geri aðrir betur. Hann ætlar að halda upp á afmælið í Munaðarnesi í bústað...þar verður chillað í heita pottinum með hamborgara í annari og pizzu í hinni...eða eitthvað.

Ég fór að borða á Nielsen í gærkveldi með Lóu, Sigríði og Skottu. Fékk mér spjót með allskonar gummsi...very good. Spiluðum svo í smá stund en svo var bara farið að sofa enda dáldið ryðgaður eftir laugardagskvöldið. Í kvöld verður síðan fyrsti samlestur hjá okkur leikurunum og er ég mjög spenntur:)

Oddur Bjarni kemur líklega um næstu helgi og ætlum við að byrja á smá partýi þar sem við fáum eins marga og við getum til þess að koma og fagna með okkur. Ef það verður gott veður ætlum við að grilla úti en ef það verður vont veður ætlum við að grilla úti. Allir sem vettlingi geta valdið mæti og fagni fagni fagni.

20 maí 2007

Kallinn fór á ball

Já það kom að því að kallinn skellti sér á ball í gærkveldi en það hefur ekki gerst í mörg ár. Ég byrjaði á því að fara í partý til Lóu en það var hálf-undarlegt partý...maður var pýndur til að fara í twister...það var ekki gaman. En síðan fórum við leirspilið og það var ágætt....svo var líka farið í einhvern leik sem kallaðist knúsum Óttar...það var hálf skrýtinn leikur og ég skildi hann ekki alveg. Eftir þetta partý fórum við í partý til Ingu og Halla en þar var 3 fleira fólk en í hinu partýinu. Stoppuðum ekki lengi þar heldur röltum á ball. Ballið byrjaði ágætlega en svo varð alveg stappað inni...það var ekki alveg nógu gott. Ég hitti Dandý í mýflugumynd en svo virðist sem hún hafi verið numin á brott af geimverum. Þetta var annars ágætis skemmtun.

Í morgun kláruðum víð síðan að flytja leikmyndina...sem er frábært og þá sérstaklega miðað við heilsu mina en hún er ekki alveg eins góð og í gær:D Núna er ég síðan að fara á Café Nielsen að borða með Lóu og svo ætla ég að SOFA!!!

19 maí 2007

Hundleiðinlegt veður

Í dag er alveg hundleiðinlegt veður og það er reyndar búið að vera þannig í nokkra daga. Norðan átt með kulda og trekki. Þetta er reyndar alls ekkert ósvipað því sem það var fyrir nákvæmlega ári síðan. Fyrir ári síðan vorum við að leita að honum Pétri Þorvarðarsyni en hann hafði gengið frá Grímsstöðum að næturlagi. Hann fannst látinn 21. maí 2006 en menn telja að hann hafi gengið 70-90 kílómetra. Ég er búinn að hugsa mikið til þessa atburðar undanfarið og er að átta mig meira og meira á því hversu mikið þetta tók á mann...og þá í leiðinni hversu mikið áfall þetta var fyrir fjölskyldu hans. Í sumar ætlum við að reyna að fara með fjölskyldu og vinum Péturs heitins þá leið sem hann gekk. Það verður þó aldrei fyrr en í lok júní byrjun júlí.

En þá að öðru. Í gærkveldi fór ég með Lóu, Sigríði (sem er nýbyrjuð að vinna í Birtu), Óttari og Justin Timberlake á Café Nielsen. Þau fengu sér rauðvín og bjór en ég bað um eitthvað óáfengt...og Hólý Mólý...drykkurinn sem ég fékk var bleik-fjólublá-órange rauður á litinn...en bragðið vandist þannig að þetta var allt í lagi. Fljótlega voru tekin upp spil og við spiluðum Stress, Lýgi, Ólsen og Ólsen og Ólsen og Ólsen upp og niður til klukkan að verða tvö. Þarna var um hörku keppni að ræða og ómögulegt að segja um hver vann en það eru nokkrir klóraðir, bitnir og marðir eftir keppnina...Eftir spilamennskuna vildu Lóa, Óttar og Justin Timberlake fara á Hetjuna og keyrði ég þau yfir. Þar var nú ekki margt um manninn eða í raun varla nokkur hræða....við sáum reyndar einn mann ganga frá barnum og inn á klósett...ekki það að það skipti neinu máli. Við ákváðum þá bara að kvöldið væri búið og fórum heim. En kvöldið var bara mjög skemmtilegt:)

18 maí 2007

Atvinnuleit

Jæja í dag hóf ég formlega atvinnuleit en eins og margir vita sagði ég nýlega upp starfi mínu sem forstöðumaður félagsmiðstöðva. Ég var að senda inn umsókn til Samfés en þeir eru að auglýsa eftir framkvæmdarstjóra. Þetta er starf sem mig langar virkilega mikið í og verð ofsakátur ef ég fæ hana. Það þýddi reyndar það að ég þyrfti að flytja suður(vá hvað það voru mörg þorn í þessari setningu) sem er ekki alveg mitt uppáhald.

En það er samt ekkert víst að ég fái þetta starf þannig að nú er maður með alla anga úti og tilbúinn í hvað sem er...svona næstum því...mig langar t.d. ekkert til þess að vinna sem t.d. bresk götuhóra...hí hí hí.

17 maí 2007

Skýrsla sendinefndar

Sendinefndin hefur lokið störfum sínum. Þau Oddur Bjarni, Guðrún og Unnur fóru á fund Þjóleikhússins og komu þaðan himinlifandi. Ákveðið var að sýna í Kúlunni fimmtudaginn 7. júní og ef það verður uppselt á þá sýningu munum við sýna aðra sýningu föstudaginn 8. júní.

Oddur Bjarni ætlar að koma í kringum hvítasunnu helgina og ætlum við að byrja æfingar á því að fá alla aðstandendur sýningarinnar saman, grilla og fagna öll saman í eitt skipti fyrir öll. Það væri svakalega gaman ef allir gætu komið í grillveisluna...kannski fæ ég að verða veislustjóri aftur!!!

Eftir hádegi ætlum við að sækja leikmyndina í hlöðuna í Vallanesi og flytja hana útí Eiða. Við getum reyndar ekki byrjað að henda henni upp fyrr á laugardag þar sem það eru einhverjar 80 kammer-konur þar núna. Við notum síðan helgina til þess að setja leikmyndina upp og byrjum að æfa í henni í næstu viku. Mikið fjör...mikið gaman...mikið grín.

16 maí 2007

Home sweet home

Þá er seinni bústaðarferðin búin og tókst hún með eindæmum vel. Byrjuðum klukkan 18 í pizza-hlaðborði og fórum svo inn í Einarsstaði. Þar vorum við í fótbolta til svona ellefu og klukkan tólf fóru allir inn í sinn bústað en við vorum með 3 bústaði. Við vorum bara 4 í mínum bústað en við skemmtum okkur bara vel. Ég sagði draugasögur til klukkan 3 en þá fóru allir skjálfandi að sofa...þetta er dáldið góð brella því það þorir enginn að vera á ferli eftir svona krassandi draugasögur.

Og þá að Þjóðleikhúsmálum. Sendinefndin er farin að kanna aðstæður. Það eru þau Oddur Bjarni, Unnur og Guðrún sem eru sendiherrar og frúr okkar. Það kemur þá endanlega í ljós hvort við sýnum í Kassanum eða Kúlunni og hvort það verði ein eða tvær sýningar. Á morgun förum við síðan með leikmyndina út í Eiða og reynum að vera eins dugleg og við getum við að koma henni upp.

Jónatan er að spila á sínum fyrstu tónleikum í dag og ég er mjög spenntur að sjá hann:)

En nú er ég lúinn og ætla að ná mér í smá kríu.

15 maí 2007

Sumarbústaður

Jæja þá er komið að seinni 10. bekkjarsumarbústaðarsamræmduprófslokaskemmtiferðardæminu. Herlegheitin byrja klukkan 18:00 í Söluskálanum með smá pizzu áti. Síðan verður farið inn í Einarsstaði og tjúttað fram á nótt. Í hádeginu á morgun grillum við og förum síðan heim aftur og verðum komin svona um eitt leytið.

Á morgun ætlum við svo að flytja leikmyndina út í Eiða og byrjum að henda henni upp og æfum alla helgina....ekki veitir af því tíminn flýgur áfram. Mér leist reyndar ekki á blikuna í gær því all out of a sudden rauk upp í mér hitinn og varð bara þræl veikur en ég náði að sofa í mig bata og er svona nokkurn veginn eðlilegur í dag...eða svona eins eðlilegur og ég get orðið.

Það hefur nú lítið gerst í pólitíkinni...framsókn og íhald eru að ræða saman. Ég eiginlega vona að framsókn dragi sig út úr stjórnarsamstarfinu...og að þeir verði í stjórnarandstöðu næsta tímabil. Þannig er sterkara að byggja flokkinn upp að nýju og þá gæti hann komið sterkur inn í næstu kosningum. Það alla vegna má ekki gerast að framsókn fari með stjórnarandstöðuflokkunum í ríkisstjórn. Þau hafa allt kjörtímabilið ráðist á framsóknarflokkinn og framsóknarfólkið og í flestum tilfellum mjög óverðskuldað og mörg ófögur orð fallið...en nú allt í einu þurfa þau á framsókna að halda...ég segi ekki meir...jú...Ó MY GOD!!!!

14 maí 2007

Listin að lifa

Jæja þá er byrjað að selja miða á Listin að lifa sem sýnd verður í Þjóðleikhúsinu 7. júní...linkurinn er hér . Mér finnst samt alveg ótrúlegt að það þurfi alltaf að setja þessa mynd með öllum auglýsingum...ekki viss um að þetta selji. Við sáum nú hvað gerðist þegar þetta var sýnt hér fyrir austan...myndirnar voru prentaðar í stórum stíl á stærðar plaggöt og...the rest is history. En samt...væri gaman ef fólk myndi nú koma og sjá sýninguna.

Ég reddaði æfingarhúsnæði áðan en við fáum að setja upp leikmynd og ljós út á Eiðum. Það er nú smá léttir að vera þó allavegna búinn að því. Við ætlum síðan að senda sendinefnd frá okkur í Þjóðleikhúsið til þess að kanna aðstæður og ræða við tæknimann og annan.

Kosningaúrslit

Jæja þá er kosningunum lokið og óhætt að framsóknarmenn riðu ekki feitum hesti úr þessum kosningum. Annars fór þetta svona:

X-B: 11.7% á landsvísu og 7 þingmenn. Missa 5 þingmenn og 6% fylgi. Það er ljóst að flokkurinn á erfitt en ekki þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna fyrir helv...hann. Flokkurinn kemur samt ágætlega út á landsbyggðinni og fær alla sína þingmenn þar.

X-D: 36.6% á landsvísu og 25 þingmenn. Bæta við sig 3 þingmönnum og 2.9% fylgi. Koma gríðarlega vel út úr kosningunum og ég eiginlega skil ekki afhverju!!! Jú Geir er nottla fínn kall en ekki voru allir að kjósa hann...eða hvað. Þorgerður Katrín vann reyndar líka gríðarlegan sigur í sínu kjördæmi. En Sjálfstæðisflokkurinn er klárlega sigurvegari kosninganna.

X-F: 7.3% á landsvísu og 4 þingmenn. Halda sínum 4 þingmönnum og bæta við sig 0.1% fylgi. Sigurjón Þórðarson komst ekki inn á þing en hann er búinn að ríða um héröð hér síðan hann ákvað að færa sig úr norðvestur kjördæmi í kjördæmið mitt.

X-I: 3.3% á landsvísu og engann þingmann. Ómar er ekki öfundsverður þessa dagana. Steingrímur J nýtir hvert tækifæri sem gefst til þess að minna hann á að Íslandshreyfingin hafi orðið til þess að stjórnin hélt velli. Ómar heldur því þó statt og stöðugt fram að hann hafi tekið flest atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum...aha...right.

X-S: 26.8% á landsvísu og 18 þingmenn. Tapa 2 mönnum og 3.2% fylgi. Og samt segir Ingibjörg að Samfylkingin sé sigurvegari!!!

X-V: 14.4% á landsvísu og 9 þingmenn. Bæta við sig 4 mönnum og 5.6% fylgi. Gríðar góð útkoma hjá þeim en samt ekki eins góð útkoma og kannanir höfðu sýnt. Virðist eitthvað hafa gerst á síðustu metrunum sem varð til þess að fólk ákvað að styðja ekki Vinstri-Græna.

Þetta voru gríðarlega spennandi kosningar og vafalaust mest spennandi kosningar sem ég hef orðið vitni af.

En yfir í annað...við erum að leita logandi ljósi að æfingahúsnæði fyrir leikritið okkar. Iðavellir eru uppteknir og Sláturhúsið hentar ekki. Ætlum að athuga með Eiða í dag og vonandi gengur það. Skoðuðum leikmyndina í gær og er hún í þokkalegu standi.

12 maí 2007

Asskoti fínn

Jæja þá er komið að kosningadeginum mikla. Við Jónatan sváfum fram eftir...hann vaknaði klukkan 9 og fór að horfa á barnaefni og ég dormaði aðeins lengur. Við fórum síðan í kosningabíltúr og kíktum í kosningaframsóknarkaffiveislu. Þar var ofur kaffi-hlaðborð...brauðréttir, brauðterta, pönnukökur, kleinur, tertur, kökur, flatbrauð m/hangikéti og örugglega margt fleira. Jónatan borðaði á sig gat en hann fór 5 ferðar!!! Svo settist hjá okkur kona með hlaðinn disk...hún byrjaði strax að fárast yfir því að eitthvað hlyti þetta nú að kosta og lét í það skína að þarna væri um skattpeningana okkar að ræða. Ég útskýrði þá fyrir henni að það væru félagsmenn sem myndu alfarið sjá um að versla inn og baka og þetta væru þeirra peningar...þá ljómaði hún öll spændi í sig matinn...mig grunar að hún sé þarna enn þá. Síðan settist hjá okkur Villi nokkur á Brekku og sagði okkur gamlar kosningasögur...hann er alltaf hress kallinn.

Eftir kaffið fórum við síðan að kjósa en það er bara einn kjörstaður í sveitafélaginu og held ég að það hafi ekki verið góð hugmynd. Ein kjördeildin var svo stýfluð að það var biðröð langt útá bílaplan. Ég var í óstýfluðu kjördeildinni þannig að ég var enga stund að kjósa rétt.

Í kvöld ætlum við Jónatan síðan að grilla saltfisk og hörpudisk og horfa síðan á sjónvarpið með nammi og gos. Jónatan sofnar örugglega klukkan níu eins og vanalega en ég ætla að vaka eftir úrslitunum. Ég er dáldið spenntur og vona svo innilega að stjórnin haldi með svona 4-5 mönnum. Ég held að það sé ekki gott fyrir okkur Austfirðinga að fá vinstri stjórn. En nóg í bili...eigiði góðan dag, skemmtilegt kvöld og spennandi nótt:)

11 maí 2007

Skárri

Jæja...nú er maður aðeins búinn að ná sér eftir Evróvision og lífið heldur áfram. Er að skipuleggja seinni sumarbústaðarferðin með 10. bekkinga. Sú ferð verður á þriðjudag og vænti ég þess að það verði bara gaman. Síðan er allt að fara á fullt í leiklistinni...styttist óðum í þjóðleikhúsferð. Ætlum að fara að kíkja á leikmyndina á sunnudag og reyna að finna okkur húsnæði til þess að setja hana upp. Iðavellir eru ekki lausir þannig að við þurfum að leita að einhverju öðru. Ætli það endi bara ekki með því að við setjum hana upp í stofunni hjá mér!!!

Ég fór í kaffi niðrí Birtu í morgun...og áður en ég vissi voru Birta og Lóa búnar stilla mér upp á miðju verslunargólfinu og voru að máta á mig gleraugu...en mig langaði bara í kaffi. En sem sagt...ég er að fá mér ný gleraugu...mig langar samt meira í kaffi!!!

Svo er það að kjósa á morgun...

10 maí 2007

Hundfúll

Já ég er alveg hundfúll yfir því að hann Eiki sé ekki í úrslitum...og að sjá austantjaldsþjóðirnar raða sér í öll sætin...það er eitthvað verulega skrýtið við þetta. Ég held samt að við ættum ekki að hætta að keppa í keppninni heldur aðlaga okkur að henni. Á næsta ári ættum við því að semja við eitthvað þekkt pólsk tónskáld og biðja það að semja fyrir okkur hressilegann polka. Fá síðan pólskt verkafólk til þess að flytja lagið fyrir okkur. Með því myndum við fljúga inn í úrslitin og vinna næstu keppni.

En kvöldið var þó ekki alslæmt...ég, Unnur og Jónatan fórum í grill til Jóns og Sillu og var þar etið, drukkið, spjallað og hlegið...það er alltaf gott að koma til Jóns og Sillu. En núna er ég orðinn lúinn og er að spá í að fara að sofa. Egglosverkurinn hefur ekki vart við sig aftur og Vibba...sko ef að ég er með egglos...þá er ég varla óléttur...eða hvað?

Go Eiki

Jæja þá er ég kominn heim úr sumarbústaðarferðinni og þetta gekk alveg frábærlega vel. Það mættu 27 unglingar og allir skemmtu sér konunglega. Ég fer síðan með annan hóp 15. maí og þá er það búið.

Í kvöld er það síðan Eurovision...júhú...ég fer til Jóns og Sillu og ætlum við að grilla og hafa það næs. Ég vona svo sannarlega að hann Eiki kallinn komist áfram. Þá verður sko gaman á laugardaginn:) Kosningasjónvarp og Eurovision...það hljómar sem ágætisblanda. Ég hugsa að Jónatan verði hjá mér og munum við vafalaust djamma fram eftir kveldi og chilla með hamborgara í annari og pizzu í hinni. Ég hlakka mjög mikið til.

Að lokum er það síðan mál málanna í dag en það er egglosverkurinn!!! Einhver sagði mér að svona verkir væru algengir og þeir myndu vara í 2-3 daga...þeir eru að vísu ekki algengir hjá KARLMÖNNUM!!! En jú verkurinn var farinn á 3ja degi þannig að það stemmir allt...en samt...Sko ókey ef ég væri með egglos...hvert ætti eggið þá að fara þegar það losnar? Sko miðað við verkinn þá var um strútsegg að ræða þannig að það ætti ekki að fara fram hjá manni!!! Að þessu sögðu held ég að þarna hafi ekki verið um egglos að ræða heldur eitthvað annað.

09 maí 2007

Þjóðleikhús

Jæja þá er búið að ákveða hvenær við sýnum Listin að lifa í Þjóðleikhúsinu. Það verður sem sagt 7. júní næstkomandi. Ég þarf að fara að grafa upp handritið aftur því það er nú dottlið langt síðan við sýndum þetta. Við höfum reyndar misst einn liðsmann en hún Sylvía sviðsmaður er ekki meðal vor lengur. Hún er farin til síns heima sem er Pólland og er það mikill missir því þarna var um hörku sviðsmann að ræða. Ég hélt að það yrði erfitt að fá nýjan sviðsmann en nei...við erum komin með tvo sviðsmenn!!! Þeir Steinar Pálmi og Pétur ætla að fara í sokkana hennar Sylvíu.

Við kláruðum að þrífa Hallormsstað í gærkveldi og þegar ég kom heim horfði ég á borgarafundinn endursýndann. Mikið óskaplega var þetta leiðinlegt...Ég hélt reyndar í byrjun að þetta yrði skemmtilegt en um leið og Sigurjón byrjaði þá var þetta game over fyrir mig...og Helgi Seljan...hvað er málið með Helga Seljan...hann minnir mig á Soffíu frænku...en ég nenni ekki að tala um pólitík núna.

Ég er síðan að fara í sumarbústað með 26 tíundubekkinga. Förum inn í Einarsstaði og gistum þar í eina nótt. Þetta er sjötta og síðasta skiptið sem ég fer í svona ferð þar sem ég er að hætta í sumar sem forstöðumaður félagsmiðstöðva.

Í fyrradag fórum við Lóa að finna fyrir verk vinstra megin í mallakútnum. Við héldum að þetta væri einhver tvíburaveiki en við erum sem sagt tvíburar...eigum bæði afmæli 21. júní en það eru að vísu 13 ár á milli okkar. Í gær vorum við ennþá með þennan verk og fór Lóa til læknis...þá kom í ljós að þetta var egglosverkur!!! Það lítur ekki mjög vel út fyrir mig!!!

08 maí 2007

Nýtt líf

Jæja þetta fer allt ágætlega af stað. Ég byrjaði reyndar á því að gleyma passwordinu en ég er búinn að redda þessu...og ég held ég sé bara nokkuð góður í þessu...ég held ég sé bara nokkuð blogginn. Ég hef þegar fengið 3 gesti en það eru þær Dandý og Sigga Lára að ógleymdum góðvini mínum honum Nafnlaus en við höfum þekkst mjög lengi.

Ég, Fjóla og Eygló fórum inn í Hallormsstað í gærkveldi að þrífa herbergin. Við vorum svaka dugleg og náðum að klára herbergin á innan við 2 tímum!!! Svo fórum við leikararnir (Ég, Eygló og Lóa) í viðtal hjá RÚV og vorum búin þar um ellufuleytið í gærkveldi. Við hlustuðum síðan á viðtalið og þar var bara ágætt.

Dagurinn hefur síðan farið í að undirbúa sumarbústaðarferð sem ég er að fara í með 10. bekkinn á morgun. Einnig hefur maður náttúrulega verið að plana Þjóðleikhúsferð og æfingar fyrir það. Það eru 3 dagsetningar í boði en það er 31. maí, 3. júní og 7. júní. Verður ákveðið á fundi kveld hvaða dagsetning verður fyrir valinu.

Svo styttist nú óðum í kosningar og ég er skíthræddur um að ég gleymi að kjósa...flokkurinn má nú ekki við því. Ég hef ekkert náð að fylgjast með kosningabaráttunni en mér hefur fundist sem hún snúist aðalega um skoðanakannanir...mér finnst eins og þær hafi hreinlega drekkt baráttunni! En það er á brattann að sækja og hvert atkvæði gildir.

Well nóg í bili og eigið góðan dag:)

07 maí 2007

Frábær helgi

Jæja þá er ég byrjaður að blogga!!! Og það fyrsta sem ég blogga um er líka ekkert smá...ég er sem sagt að fara að leika í Þjóðleikhúsinu!!! Leikritið Listin að lifa var nebblega Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins:)

Já en helgin var annars svona:

- Héldum aðalfund BÍL sem tókst æðislega
- Hitti margt skemmtilegt fólk
- Var veislustjóri á hátíðarkvöldverðinum...kannski ekki alveg nógu góð hugmynd
- Athyglisverðasta áhugaleiksýningin
- Við Elísabet Freyvangsdóttir leiklásum hið frábæra verk Fröken Heppin...það fer í Þjóðleikhúsið á næsta ári
- Svaf lítið...eitthvað sem þarf að bæta á framtíðar BÍL þingum