17 september 2007

14 september 2007

Hlakka til helgarinnar

Jæja þá er að koma enn önnur helgin. Tíminn er hættulega fljótur að líða. En þetta stefnir í flotta helgi. Jónatan er að koma í kvöld en hann er nýskráður sem flugkappi hjá FÍ. Hann var dáldið smeykur við að fljúga einn en svo kom í ljós að afi hans og amma eru skráð með sama flugi og hann...bæði fram og til baka.

Hann er búinn að setja saman þétt prógramm fyrir helgina en það er nokkurnveginn svona:

Fös.
21:10 Sækja kauða
21:30 MacDonalds
22:00 Heim að sofa

Lau
10:00 Vakna og morgunmatur
11:30 Horfa á Liverpool leik
13:30 Pizza Hut
14:00 Skoðunarferð um Smáralindina
15:00 Húsdýragarðurinn
17:00 Bíó
19:00 Heimsókn til afa og ömmu
22:00 Heim að sofa

Sun
10:00 Vakna og morgunmatur
12:00 Keyra á Akranes og heimsækja mann og annan
16:00 Komið aftur í bæinn og kíkt í Kringluna
17:40 Mæting á flugvöll
18:10 Flogið aftur austur
19.00 Þráinn leggst upp í rúm og andar:D

10 september 2007

Róleg helgi

Já þetta var bara róleg og þægileg helgi. Var ekkert að vinna og gat bara slakað á. Fór í leiklestur með Hugleik á laugardegi og sunnudegi. Þar voru lesin 5 MJÖG mismunandi leikrit. Þau voru súr, fyndin, alvarleg, söguleg, ýkt og ég veit ekki hvað og hvað. Mjög gaman samt. Fór svo í matarboð á Akranes...fékk ofur kjúlla a´la systir.

í vikunni ætla ég svo í bíó að sjá Astropíu...hef ekki farið í bíó síðan ég sá Pirates of the Carabian. Annars er bara nóg að gera í vinnunni. Er að undirbúa Starfsdag sem haldinn verður í Skagafirðinum, Landsmót sem haldið verður í Vestmannaeyjum og Stílkeppni sem haldin verður í Kópavoginum.

Það er ótrúlega mikill munur að keyra í vinnuna úr Kópavoginum en úr Breiðholtinu. Það er nánast eðlilegur umferðarhraði úr Kópavoginum á meðan það er allt stopp úr Árbænum og Breiðholti. Það er sem sagt satt hjá kauða....ÞAÐ ER GOTT AÐ BÚA Í KÓPAVOGI:)

06 september 2007

Friðargæsla

Maður hefur nú svo sem ekki fylgst mjög náið með þessu blessaða Íraks máli okkar íslendinga en þó eitthvað. Það hefur reyndar verið erfitt að sleppa við að heyra þau ósköp sem dundu á í þinginu okkar síðasta kjörtímabil. Við vorum víst að taka þátt í stríði og það var meira að segja sagt að við værum með hermenn í Írak. En nú er hún Ingibjörg Sólrún komin til valda og hún hefur ákveðið að kalla heim allan friðargæluliðann okkar í Írak. Sem sagt...öll ósköpin voru einn friðargæsluliði!!!

Miðbærinn

Það er búið að vera mikið í umræðunni ófremdarástandið í miðbænum. Búið er að leita að mörgum sökudólgum. Tveir aðalsökudólgarnir virðast vera...ef marka má umræðuna...reykingarbannið og lítill bjórkælir í austurstrætinu. Ég einhvernveginn veit ekki alveg hvort þetta geti verið rétt. Jú vissulega er búið að vera mikið af fólki í miðbænum í sumar og svo virðist sem margir hafi skotist inn í vínbúðina og keypt sér einn kaldan...En er ekki sökudólgurinn aðeins ofar? Sko...veðrið í borginni var óvenju gott í sumar. Getur ekki verið að það sé ástæðan fyrir því að fólk var ekki eins mikið inni á skemmtistöðunum? Getur verið að það sé að einhverjum hluta ástæða þess að ásókn í kælinn í Austurstræti var svo mikil? Maður veit ekki...en kannski er alveg óþarfi að fara á límingunum.

05 september 2007

Skammaður

Já ég var skammaður áðan fyrir að era ekki nógu duglegur að blogga og verð ég því að gera bragarbót á því.

Ég fór austur um síðustu helgi og var mjög gaman. Ég fór á laugardeginum niður á Stöðvarfjörð og hjálpaði til við að undirbúa ljósanótt. Jónatan var þar með mömmu sinni og hjálpaði hann smá til líka. Ljósakvöldið tókst síðan mjög vel og það rættist heldur betur úr veðrinu. Það voru örugglega um 100-150 manns sem mættu þarna og gegnu um Steinasafnið eða dönsuðu við glamur harmonikkunanar.

Ég kom svo suður aftur í gær og var orðinn hálf slappur eftir vinnu. Í nótt fékk svo geggjaðan hit...örugglega 50 stig...og er hálf slappur í dag...kvefaður og sloj. Ég stefni svo á að flytja í kvöld yfir í Kópavog...ef ég nenni.

28 ágúst 2007

Danmörk og Svíþjóð

Þá er maður kominn úr norðurlandaferðinni. Fór með ungmennaráð Samfés til Svíþjóðar og Danmerkur. Ferðin var mjög skemmtileg og tókst bara vel. Föstudagurinn og sunnudagurinn voru að vísu mjög langir og það var ekki mikið sofið í ferðinni...en maður er víst bara einu sinni ungur...hí hí hí.


Það var gaman að rölta um í miðbæ Köben. Yfirbragðið þar er allt svo rólegt að manni fannst stundum að maður ganga í svefni...eða eitthvað. Við fórum að sjálfsögðu í tívolíið og þar var ég gersamlega plataður til að fara í eitthvað það hræðilegasta tæki sem til er. Held það heiti Drekinn. Það er eitthvað tæki sem í allskonar hringi aftur á bak og áfram...ég hélt ég myndi enda líf mitt þarna. En allt kom fyrir ekki neitt...ég lifði þetta af en ætla ekki aftur í þetta. Alla vega ekki strax.


Ég stefni á að koma austur næstu helgi og verð þar í nokkra daga. Hlakka til að hitta Jónatan en ég sakna hans gríðarlega mikið. Maður kíkir líklega á ljósakvöld á Stöðvarfirði en það er haldið í Steinasafni Petru. Það er alltaf mjög flott og skemmtilegt.

23 ágúst 2007

Mikið að gera

Jæja þá er maður kominn á fullt í vinnunni. Náði líka menningarnótt í borginni. Hitti þar fullt af austfirðingum sem var mjög skemmtilegt. Ég tók daginn snemma og horfði aðeins á maraþonhlaupið. Þar þekkti ég nokkra hlaupara í 10. km skokki og eru hér tímar þeirra: Boðvar 53 mín, ELÓ 63 mín, Jón Gunnar 68 mín. Allt hörkuhlauparar. Ég reyndar sá ekki þegar ELÓ og Böðvar komu í mark en ég heyrði hvininn.

Klukkan 16 fór ég síðan og hlustaði á Ljótu Hálvitana á Miklatúni og voru þeir æðislegir. Þar hitti ég Jón og Sillu, Friðjón, Ragga, Lóu, Óttar, Zoffa, Böðvar, Odd Bjarna og Margréti. Um kvöldið rölti ég svo um borgina með þeim Friðjóni og Ragga....og við sáum FÆREYINGA!!!!

Á mánudaginn fór ég síðan á Samfés fund á Ísafirði. Við funduðum til fjögur en þá var tekið fundarhlé og farið á Flateyri en þar átti að sýna okkur kajaka. Við fórum í kajakana og okkur var ýtt úr vör...héldum svona að við værum að fara að róa í höfninni...en nei ekki aldeilis. Við rérum út úr höfninni og var stefnan tekin að landi hinu megin í firðinum. Þegar þangað var komið var tekin 90° vinstri beygja og róið inn fjörðinn. Veðrið var æðislegt...sól og logn. Eftir tvo tíma fórum við að spyrja hvað við myndum fara langt...þá sagði leiðsögumaðurinn..."Bara að bryggjunni...eða eigum við að fara lengra?" Við litum þá inn í botn og sá þar glitta í smá bryggju...við sögðum náttlega strax nei nei...og rerum af stað...en það var sama hvað við rérum alltaf virtist bryggjan vera jafn langt frá. En að lokum hafðist þetta þó og við komum á hótelið um klukkan átta sæl og glöð eftir allavegna 17 km kajakróður....jæja ókey 8 km.

Um kvöldið var síðan aðeins þjórað og spilað spil sem heitir Varúlf. Við spiluðum 4 spil og ég var 3svar varúlfurinn sem er einskonar met held ég. En í kvöld er ég að fara til Danmerkur með 14 unglinga. Það verður ábyggilega mjög gaman en ég segi ykkur frá því seinna.

13 ágúst 2007

Klukkaður

Dandý klukkaði mig þannig að ég verð að segja 8 staðreyndir um mig.

1. Ég held með Liverpool
2. Ég er framsóknarmaður
3. Ég er hálfpartinn að flytja í borg óttans
4. Ég á Subaru Legacy
5. Ég á 7 ára strák sem heitir Jónatan Leó
6. Ég ætla að skemmta mér á Menningarnótt
7. Mér finnst Ljótu Hálfvitarnir skemmtilegir
8. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er klukkaður.

Ég klukka síðan hana Friðbjörgu systir...KLUKK

Time out

Jæja þá styttist í að maður kveðji austurlandið aftur. Fer suður á miðvikudaginn en ætla reyndar á Stödda annað kvöld og gista hjá Jónatan en hann er hjá afa sínum og ömmu. Í kvöld ætla ég á Borgarfjörð að taka í spaðann á Aldísi.

Ég hlakka mjög til um helgina. Þá verð ég á Menningarnótt í Reykjavík í fyrsta skipti í mörg ár. Ég ætla að taka rólegt kveld og rölta á milli viðburða. Maður byrjar náttúrulega á Miklatúninu klukkan 16:00 en þá verða Ljótu Hálfvitarnir með tónleika. Svo verður það bara létt rölt um bæinn.

Mér sýnist reyndar sem ég verði að fylgjast með maraþoninu en ég þekki nokkra sem ætla að taka þátt þetta árið. Spurning um að hanna fána og kaupa þoku lúður og trommur.

11 ágúst 2007

Að gera veður

Enn og aftur er komin helgi. Tíminn líður hratt þegar maður hefur nóg fyrir stafni. Það er reyndar allt of lítið eftir af sumrinu. Sumarið hefur reyndar ekki verið eins gott hér og í fyrra en ágætt samt. Bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði ákváðu á síðasta fundi sínum að skamma veðurfræðinga fyrir það að fá ekki nógu góðar veðurspár...eins og veðurfræðingar hafi mátt við meira einelti!!!!

Bæjarráð er að tala um það að vegna þess að veðurspár séu ekki alveg réttar hafi ferðamannafjöldi á Héraði ekki verið nógu mikill. Ég held reyndar að það sé ekki ástæðan. Ég held að ástæðan sé sú að veðrið á Suðurlandinu er búið að vera óvenju gott. Ef það rignir ekki í kringum borgina þá fer fólkið í ferðalög nær borginni. Ef það rignir þar fer fólk frekar í aðra landshluta. Ég aftur á móti er ekki sáttur við að veðurfræðingarnir standa alltaf fyrir Austurlandi!!!

09 ágúst 2007

Hvalaskoðun

Í gær átti hann Jónatan afmæli. Hann varð sjö ára og við erum viss um að hann stækkaði helling. Dagurinn byrjaði á því að ég vakti hann með afmælissöng...hann vaknaði brosandi og glaður og tók utan mig. Klukkan níu fórum við og sóttum Máney og brunuðum síðan norður í land eða á Húsavík nánar til tekið. Klukkan tólf vorum við svo stödd í Náttfara og vorum að fara í hvalaskoðun. Veðrið var æðislegt og sáum við fullt af hvölum...við sáum svona 20 höfrunga, 2 risa hnúfubaka og 1 hrefnu og 74 Súr-Hvali;) Á leiðinni var boðið upp á kakó og snúða.

Um borð í bátnum voru 90-100 manns og þegar við vorum að vera komnir að bryggju stendur Jónatan fyrir framan mig og horfir í kringum sig...segir síðan..."Pabbi...þú bauðst svei mér mörgum í afmælið mitt"!!!!:D

Þegar við komum í land fengum við okkur að borða og hittum Odd Bjarna en hann er Ljótur Hálfviti:D Síðan skoðuðum við hvalasafnið og héldum síðan heim á leið. Á leiðinni heim stoppuðum við á jarðhitasvæðinu á Mývatni og löbbuðum þar í 20 stiga hita og sól. Við vorum komnir heim um klukkan átta þreyttir og sælir eftir vel heppnaðann dag.

Í dag er það svo vinna og í kvöld ætlum við Jónatan í siglingu með Lagarfljótsorminum.

06 ágúst 2007

Gott partý

Á laugardaginn fór ég í flotta skemmti ferð með Lóu, Rannveigu, Steinþóri, Sigríði og Jónu Björt. Við byrjuðum klukkan sjö á því að skella okkur í útreiðatúr í Hallormsstaðaskógi. Áður en lagt var af stað tæmdist ein freyðivínsflaska. Það var búið að mígrigna þannig að allt var rennandi blautt en við létum það ekkert á okkur fá. Ég var á hesti sem hét Staupi...passar kannski ekki alveg við mig svona öllu jöfnu en passaði ágætlega þetta kvöld. Áleiðinni var síðan stoppað og horft yfir skóginn. Geggjað flott. Svo var náttúrulega tekin smá hestaskál. Klukkan hálf níu vorum við komin aftur í hesthús og var þá að gera sig klár í að fara í siglingu. Við vorum öll rennblaut og skítug þannig að við fórum heim til Steinþórs að skipta um föt. Náðum því á mettíma og mættum á réttum tíma í ferjuna. Þetta þýddi það að við náðum ekki að tjalda fyrir siglingu.

Siglingin hófst síðan klukkan 21:00 og ég var kominn á bryggjuna klukkan ellefu....MORGUNINN EFTIR!!!! Jú eftir geggjaða skemmtun í siglingunni þar sem ég fór á kostum í dýfingum kvenna voru menn ekkert voðalega spenntir fyrir því að vera að fara að tjalda. Sömdum við því við skipstjórann um að vera dugleg á barnum og hann myndi í staðinn leyfa okkur að grilla og gista í bátnum. Hann tók síðan þátt í partýinu en klukkan tvö ákvað hann að nóg væri komið og svæfði okkur...sem var reyndar ekki erfitt.

Í gær fór ég síðan að ná í Jónatan sem var hjá afa sínum og ömmu á Stödda. Við komum heim um fimmleytið en þá fórum við og náðum í pizzu og dvd mynd (Bean Hollyday). Við ætluðum að hafa það næs og borða pizzu yfir fótboltaleik (Liverpool-Feyenord) en ég var varla sestur þegar það kom björgunarsveitarútkall. Ég fékk Sigríði til að vera með Jónatan og rauk í útkallið sem tók rúma 2 tíma. Þegar heim var komið borðaði ég kalda pizzu og horfði á Bean...hundleiðinleg mynd. Eftir myndina fórum við Jónatan inn í rúm og lásum aðeins. Við vorum að festa svefn þegar það kom annað útkall. Ég ræsti Siríði aftur út og rauk í útkallið...það var ekki búið fyrr en klukkan tvö...það var ekki erfitt að sofna þegar ég kom heim.

02 ágúst 2007

Forvitni

Jæja þá er skatturinn búinn að kveða upp dóm sinn og verð ég að segja hann hafa verið mér nokkuð góður þetta árið. Hann henti í mig vænni fúlgu og ég þarf ekkert að borga til baka. Hef yfirleitt fengið einhverja þúsundkalla 1. ágúst og þurft svo að borga svipað til baka einu sinni í mánuði út árið....Mér hefur alltaf fundist þetta skrítið fyrirkomulag.

En ég var ekki skattakóngur þetta árið...reyndar ekki í fyrra heldur. En nú eins og síðustu ár er aftur komin upp sú umræða um hvort skatturinn eigi að birta eða gefa út allar þessar upplýsingar. Fólk stendur upp á afturfæturnar og segir að fólki komi ekkert við hvað nágrannin hafi í laun og svo framvegis. Ég verð reyndar að segja fyrir mitt leiti þá líður mér ekkert betur þó að ég viti hvað Stebbi nágrenni hefur í laun...eða hvað hann borgar í skatt. Mér gæti bara ekki staðið meira á sama.

En ég er að spá...ætli það sé í alvörunni til fólk sem beinlínis líður illa ef þeir vita ekki hvað nágranninn hefur laun og skatta?

01 ágúst 2007

Langt flug

Ég kom austur úr borginni í gærkveldi. Mætti á flugvöllin klukkan 18:45 en vélin átti að fara klukkan 19:30. Lenti í smá þrasi við afgreiðslustúlkuna en hún vildi ekki að ég færi með tölvutöskuna í handfarangri þar sem hún væri rúm 7 kíló en það má bara fara með 6 kíló!!! Komust að samkomulagi að ég myndi taka tölvuna úr töskunni þegar ég myndi setjast!!! En ókey...vélin fór í loftið klukkan 19:30 og allt gekk að óskum. Ég var farinn að sjá rúmið mitt í hillingum þegar um 20 mínútur voru eftir af fluginu...en þá allt í einu beygði vélin og sneri við. Flugstjórinn tilkynnti okkur það að ísingarvarinn væri bilaður og við myndum lenda í Reykjavik eftir 40 mínutur.

Hann sagði jafnframt að það myndi heil vél bíða okkur þar og við myndum bara ganga beint yfir í vélina. Eftir svona korter tilkynnir hann svo að við munum ekki fara beint yfir í aðra vél heldur fara inn i flugstöðvarbyggingu og bíða þar í 5-8 mínútur. Ok...við lentum ...og flugfreyjan segir...velkomin til Reykjavíkur!!! Við fórum inn í bygginguna en þá var okkur tilkynnt að það yrði kallað út eftir hálftíma!!!

Klukkan 21:30 fór síðan vélin í loftið. Lentum svo klukkan 22:30...3 tímum eftir að við fórum upphaflega í loftið...geggjað gaman.

30 júlí 2007

Gobbitti gobb

Í gær fór ég á hestbak...hef ekki farið á hestbak í allavegna 15 ár. Jóna Björt bauð mér í smá túr...eða 2ja tíma túr í geggjuðu veðri og frábæru umhverfi. Það var ekki amalegt að ríða um Hallormsstaðaskóginn í 20 stiga hita, sól og blíðu. Ég er reyndar ekki alveg eins ánægður í dag...dáldið illt í botninum. Lítur ekki mjög vel út ef einhver spyr afhverju maður gangi svona...svarið yrði: " Jú var ríðandi í Hallormsstaðaskógi í 2 tíma í gær og er að drepast í rassinum".

Ég las í morgun þessa frétt á mbl.is. Þar segir frá manni sem hélt konu sinni í gíslingu í Þórsmörk. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér er að maður er að heyra allt of mikið af svona hlutum. Er fólk alveg að tapa sér! Og svo í gær skaut maður annann mann sem var að taka saman við fyrrverandi konu hans!!! Á Íslandi!!! Á Kringlumýrabrautinni!!! Með riffli!!! Ég vona svo sannarlega að svona atburðir fái fólk til að hugsa...svo svona endurtaki sig ekki...

28 júlí 2007

Kominn heim

Jæja þá er maður kominn austur. Keyrði í gær og lenti í skrýtnu veðri...það axjúallí var haglél á leiðinni!!! Í lok júlí í 15 stiga hita!!! Ég hélt að ég hefði séð allt en greinilega ekki. Ég svaf eins og steinn í rúminu mínu í nótt. Fór síðan í morgunkaffi til Dandýar það var mjög gott. Í dag ætla ég svo að slaka á og undirbúa komu Sigríðar en hún flytur líklega inn á morgun. Var að spá í að fara á Borgarfjörð en mig langar frekar að slaka á...nenni ekki að keyra meira.

26 júlí 2007

Nóg að gera

Þá er maður að vinna og vinna. Nóg að gera...fór í mat áðan...keypti mér samloku og safa og fór settist á Austurvöllinn. Hitti þar fullt af fólki sem ég þekki...meira að segja Möggu Sveins...þetta er ekki stór heimur:D

Á morgun ætla ég síðan að keyra austur. Aldrei að vita nema maður renni á Borgarfjörð eða eitthvað. Ætla síðan að gera allt klárt fyrir Sigríði svo hún geti flutt inn. Vonandi getur hún flutt inn á sunnudag. Á mánudaginn ætla ég svo að fljúga suður á fund og svo austur aftur á þriðjudag. Verð svo fyrir austan fram í miðjan ágúst.

25 júlí 2007

Langt síðan

Jæja það er orðið langt síðan ég hef bloggað. Ég er sem sagt byrjaður í nýju starfi og líkar það bara alveg þrælvel. Mörg skemmtileg verkefni sem gaman verður að takast á við. Fyrsta daginn í vinnunni var mér falið að fara með Ungmennaráð Samfésar til Danmerkur og Svíþjóðar í lok ágúst...það verður bara gaman.

Ég er að spá í að koma austur um helgina og koma leigjandanum í íbúðina. Vonast svo til að geta verið fyrir austan megnið af ágúst.

Og svo að öðru...hvað er málið með þetta Saving Iceland dæmi!!! Leiðist fólki virkilega svona mikið að þetta er það eina sem því dettur í hug. Það er allt í lagi að mótmæla...en þetta eru ekki mótmæli...ég er meira að segja viss um að einhverjir þarna vita ekki einu sinni hvers vegna þeir eru þarna...þeir bara elta...eða eitthvað...en svona er Ísland í dag.

15 júlí 2007

Ekki spámaður í föðurlandi

Var að klára að horfa á úrslitaleikinn í Copa America. Þeir Jón Gunnar og Herbjörn mættu með rauðvín og gotterí til að horfa á leikinn. Ég hélt að Argentínumenn myndu slátra Brössunum og spáði þeim 6-0 sigri. Raunin varð þó önnur því Brassarnir unnu 3-0...þannig að það munaði 9 mörkum að ég hefði haft rétt fyrir mér!!!

í dag fórum við loksins í Sænautasel og Klaustursel. Sigríður sem ætlaði með okkur var of timbruð eða eitthvað þannig að við buðum Unni með okkur. Áttum fínan dag í sveitinni og Jónantan naut sín vel. Hann tók upp á því á milli Sænautasels og Klaustursels að telja þær kindur sem hann sá...Unnur sofnaði þegar hann var kominn upp í 38.

Þegar við komum heim fór Jónatan til Unnar og ég fór út að borða með Aldísi. Fengum fínan mat og spjölluðum helling.

Á morgun ætla ég svo að skila af mér lyklum af Nýung og funda með yfirmanninum. Eftir hádegi ætlum við Jónatan að fara inn í Möðrudal en Friðbjörg og fjölsylda ætla að vera þar næstu nótt. Ég ætla að gá hvort Villi geti hýst okkur eina nótt. Á þriðjudaginn förum viða svo með familíuna í sama túr og við fórum í dag og endum svo í bústað í Úlfsstaðaskógi. Gaman gaman...

14 júlí 2007

Hebb

Við Jónatan ætluðum að fara að kíkja á Kárahnjúkinn í dag en við sáum ekki rassgat fyrir þoku. Fórum reyndar út að borða fyrst...fórum á nýja Tapas staðinn og pöntuðum okkur Lasagna. Um leið og við fengum matinn komu 3 menn inn og röðuðu í sig bjór og skotum...urðu blindfullir og leiðinlegir...ég fer ekki aftur þarna með Jónatan...alla vegna ekki í nokkur ár.

Á morgun ætlum við að fara inn í Sænautasel og Klaustursel. Sigríður og Soffía ætla með okkur og kannski Hlynur. Á mánudaginn tökum við síðan bústað í Úlfsstaðaskógi og tökum á móti Friðbjörgu og fjölskyldu. Verðum þar í nokkra daga en svo er ég farinn suður á bóginn. Ég hlakka mjög til að byrja að vinna. Það eru svo mörg skemmtileg verkefni að glíma við.

13 júlí 2007

All righty then

Jæja þá er maður allur að koma til. Kominn á fætur og hálbólgan á undanhaldi. Við Jónatan hófum daginn á tölvuleikjum enda rigndi úri....sem er bara gott. Ég var farinn að hafa áhyggjur af lóðinni minni. Hún er ekki það vel þökulögð að hún megi við þurrka tíma líka.

Friðbjörg systir kemur á mánudaginn með sína hele family. Við Jónatan ákváðum að vera grand á því og bjóða þeim í bústað...fórum að skoða hann í dag og henn er mjög flottur. Meira að segja heitur pottur!!! Við ætlum í bústaðinn á mánudaginn og vera í honum þá vikuna eða þar til ég fer suður.

Aldís Fjóla kom í óvænta heimsókn í dag en hún er búinn að vera hellings tíma í Danmörku. Þar "vann" hún á geðveikrahæli...að hennar eigin sögn. Mér finnst í raun aðdáunarvert hvað Danirnir eru farnir að nota þróaðar leiðir til þess að fá geðveikan einstakling til þess að finna sig sem hluta af samfélaginu. Aldís fékk þarna frítt fæði og húsnæði og meira að segja var henni sköffuð náttföt. Hvernig hún slapp þaðan veit ég ekki en hún kenndi mér allavegna leik í dag sem hún lærði þarna úti. Hann heitir "Passe dig når jeg stikker mine putte i dine næse". Einstaklega óhugnanlegur leikur.

Á morgun er stefnan tekin á að skoða Austurlandið og jafnvel farið inn í Sænautasel og Klaustursel.

12 júlí 2007

Vegna fjölda áskoranna fór ég ekki í golfmótið í gærkveldi. Mig grunar reyndar að aðrir keppendur hafi fengið þær Guðnýju og Höllu til þess að fá mig til að keppa ekki...en alla vegna það tókst. Ég ligg reyndar enn lasinn heima og er að verða sturlaður úr leiðindum. Frábært veður úti og ég hangi bara inni. Ég hugsa samt að ég stelist út seinnipartinn....ég bara get þetta ekki lengur...maður hefur varla farið út í 3 daga!!!!

Ég er enn að velta því fyrir mér hvort ég tek þátt í meistaramótinu um helgina. Langar dáldið en ég hef ekkert náð að spila í sumar. Annars fer ég bara með föruneyti inn í Sænautasel og Klaustursel...jafnvel inn í Laugavallalaugina þar sem hægt er að fara í náttúrulega heita laug og alvöru sturtufoss.

Friðbjörg systir kemur síðan á mánudaginn og munum við feðgar taka vel á móti fína fólkinu að sunnan. Ég veit ekki hvað þau stoppa lengi en ég stefni á að vera kominn suður ekki seinna en 20. júlí. Ég byrja svo að vinna 23. júlí og ég hlakka svakalega mikið til.

11 júlí 2007

Lasinn

Það er hræðilegt að vera lasinn á miðju sumri. Ég fór að finna fyrir hálsbólgu og slappleika á leiðinni austur á sunnudaginn. Síðan þá hefur þetta verið að versna og versna. Fór í morgun og lét athuga hvort ég væri með Streptokokka en svo var ekki...ætli ég verði bara ekki að fara í ÁTVR og versla eitthvað sterkt. Langar að fara í golfmót í kvöld...er reyndar ekki búinn að útiloka það enn að ég fari.

09 júlí 2007

Road trip

Þá er maður kominn úr road trippinu. Fór á föstudaginn með Lóu og Rannveigu í road trip til Reykjavíkur. Fórum norðurleiðina og lögðum af stað klukkan tvö. Vorum mætt á írska daga á Akranesi um klukkan tíu. Þar var pabbi hennar Lóu búinn að bjóða okkur í grill sem við þáðum með þökkum. Í þessari grillveislu var fullt af fólki sem ég þekki og þar á meðal Friðbjörg systir og fjölskylda hennar. Við fengum geggjaðan grillmat...okkur var boðið upp á svínakjöt, kjúkling, nautakjöt, lamb, hrefnukjöt, döðlur með beikoni, kartöflusallat og örugglega eitthvað meira.
Eftir grillmat og skemmtileg heit fórum við til borgar óttans. Þær ætluðu eitthvað að djamma en ég var ekki i stuði til þess. Ég fór til Guðnýjar og gisti þar í góðu yfirlæti.

Á laugardaginn fór ég svo að vinna á Landsmóti UMFÍ í Kópavogi. Þar hitti ég fullt af skemmtilegu fólki. Um kvöldið var síðan boðið upp á tónleika með flottu tónlistarfólki og má þar m.a. nefna Bubba, Hara, Bjögga Halldórs, Svitabandið ofl. Búist var við 15-20.000 manns en það var alls ekki raunin. Aðeins um 2.000 manns mættu...og það var meira að segja frítt inn!!! Ég var yfir öryggismálum þarna og er óhætt að segja að þetta hafi verið rólegt kvöld.

Á sunnudeginum fórum við síðan að huga að heimferð. Ég, Guðný, Lóa, Óttar og Rannveig fórum fyrst í Smáralindina og fengum okkur að borða á Fridays...góður matur en fáranleg þjónusta. Eftir hafa kvatt Guðnýju með virtum fórum við svo af stað austur. Klukkan var reyndar orðin fimm þegar við lögðum af stað en veðrið var geggjað. Við fórum suður leiðina og fengum gott veður alveg á Klaustur en síðan var þoka og dubbungur restina. Við stoppuðum fimm sinnum á leiðinni...Hvolsvelli, Vík, Klaustri, Lóninu og Höfn. Við vorum síðan komin heim um hálf eitt leytið þreytt en sæl eftir skemmtilegt tripp.

Í dag er ég síðan smá slappur...hálsbólga og vesen en það lagast fljótlega. Ætla að vera duglegur að fara í golf í vikunni...jafnvel svo duglegur að ég nái meistaramótinu næstu helgi.

01 júlí 2007

Gæslustörf

Í morgun vöknuðum við Jónatan klukkan sjö og fengum okkur morgunmat. Við áttum að vera mættir til gæslustarfa á Hestamannamóti klukkan átta. Við vorum að sjálfsögðu mættir vel fyrir þann tíma. Ég sá sem sagt um stjórnstöðina fyrir björgunarsveitina. Við vorum þar til klukkan fimm og það var geggjuð sól allann tímann. Ég er ekki frá því að ég hafi brunnið aðeins en það er ekki endanlega komið í ljós...vona bara að þetta fari allt vel.

Jónatan tók með sér DVD spilara og horfði á 3 Star Wars myndir. Hann er dáldið skrýtinn í kollinum núna en það jafnar sig ábyggilega. Hann má samt alveg hætta að kalla mig Svarthöfða...svo segir hann alltaf dimmri röddu " You are my father"...mér finnst það ekkert fyndið.

29 júní 2007

Bíltúr

Við Jónatan fórum í bíltúr í gær. Útbjuggum nesti og keyrðum áleiðis niður á firði yfir Fagradal. Stoppuðum upp á dal í leiðinda veðri og átum nestið okkar. Jónatan vildi ólmur fara niður á Stödda og var það ofaná. Eftir kaffisopa hjá afa hans og ömmu var okkur boðið upp á steiktan fisk. Síðan var ákveðið að fara í smá fjöruferð og veiða hornsíli. Veiðin gekk ágætlega og var aflanum sleppt að veiði lokinni. Þar sem orðið var mjög áliðið var okkur boðin gisting sem við þáðum.

Í morgun var síðan boðið upp á sjóstangveiði og veiddist bara þónokkuð af þorski og engin 175 kg lúða. Þegar búið var að gera að héldum við feðgar heim á leið. Þegar heim var komið vildum við ólmir fara í smá meiri bíltúr og tókum við hana Möggu Sveins með okkur. Fórum við inn í Atlavík og þaðan í Skriðuklaustur. Þar sleiktum við sólskinið og drukkum kaffi og kakó. Eftir það keyrðum við Fella-leiðina heim og komum við í Áskirkju. Þar sáum við 4 hreindýrstarfa...það er skrítið að sjá hreindýr svona neðarlega á þessum árstíma.

Eftir að hafa skilað Möggu heim fórum við Jónatan í Kaupfélagið mitt og keyptum okkur grillmat. Núna sitjum við á meltunni en Jónatan hámaði í sig 2 stóra bita og risa grillkartöflu...hann liggur núna og heldur um magann á sér skælbrosandi.

27 júní 2007

Fyndinn drengur

Jónatan háttaði sig inn í stofu áðan og ég var inn á baði að bursta tennurnar. Ég kallaði á hann að koma að bursta og heyrði að hann lagði af stað. Eftir smá stund lít ég fram og sé þá að hann hleypur í slow motion í áttina til mín. Hann var ber að ofan og í rauðum nærbuxum. Hann stoppaði...leit á mig skælbrosandi og sagði....ég er í nærbuxum frá Dress-mann....

26 júní 2007

Fjallganga

Í gærkveldi var mér boðið með í göngu. Ganga átti á Rembu. Ég tók því náttúrulega fegins hendi en samkvæmt upplýsingaskilti átti það að taka einn og hálfan tíma að ganga þangað. Við lögðum af stað frá Grunnskólanum Hallormsstað um klukkan hálf sex en auk mín voru í hópnum Soffía Sveins, Magga Sveins og Sigga lögga. Ég bjóst við að þetta yrði bara róleg og þægileg ganga en þar hafði ég rangt fyrir mér...þetta var ekki nein útsýnisganga. Þær gengu þræl greitt og það var allt upp í móti...og sumstaðar 90° brekkur. Ég gerði mitt besta til að hanga í þeim og gekk það bara bærilega. En þegar að Rembu var komið settist ég niður móður og másandi...heyrðist þá í Soffíu..." Huh...einn og hálfur tími my ass...við vorum bara hálftíma". Ég ætlaði að reyna að segja eitthvað en kom ekki upp orði...ekki fyrr en þær fóru að líta ofar og tala um að ganga kannski bara alla leið yfir. Þá sagði ég að það væri örugglega ekkert gaman því það væri líklega bálhvasst hinu megin. Með það gengum við niður aftur og það var miklu betra. Villtumst reyndar örlítið úr af leið en fundum stíginn aftur eftir smá villuráf...þar fékk ég viðurnefni Ævintýra-Þráinn sem hljómar bara ágætlega.

Fór svo í Lagarfellið að ná í Jónatan og fékk þar dýrindis slátur og rófur. Nú sitjum við Jónatan og erum að spá í hvað skuli gera í dag. Honum langar ekkert út og segir að það sé kominn vetur en ég er á því að fara eitthvað á rúntinn...jafnvel á Stödda eða eitthvað. Það er ekki eins gott veður og verið hefur en það er þó þurrt og ca. 12 stiga hiti. Ég vona satt að segja að hann fari að rigna því lóðin er að skrælna úr þurrki.

25 júní 2007

Góð helgi

Þetta er búin að vera þrælfín helgi. Hún byrjaði reyndar á fimmtudagskveldinu en þá var smá afmælisfagnaður á Café Nielsen. Þar var mjög góðmennt og góðkvennt. Þegar Nielsen lokaði fórum við á Hetjuna og skemmtum okkur þar fram eftir nóttu...eða til klukkan hálf tvö þegar Hetjan lokaði. Við reyndum að fá leigubíl en báðir leigubílsstjórarnir voru sofandi..eða svöruðu ekki síma...og svo er fólk að undra sig á að fólk sé að keyra ölvað hérna á Egilsstöðum. Þetta þýddi að fólk þurfti að labba yfir í Egilsstaði...en það var svo gott veður að ég það gerði ekkert til. Það voru reyndar sumir...eða reyndar sumar sem voru ekki í standi til að ganga og sem betur fer náði ég að redda þeim fari...hí hí hí.

Jónatan kom svo til mín á föstudeginum og brölluðum við ýmislegt. Um kvöldið gilluðum við og horfðum á Star Wars...skemmtum okkur konunglega. Við sváfum síðan þokkalega út á laugardeginum en við vöknuðum ekki fyrr en klukkan hálf ellefu. Fórum síðan í góðan göngutúr en svo fór hann til mömmu sinnar.

Á laugardagskvöldið var svo golfmót í leiðinda veðri. Mótið var samt mjög skemmtilegt en því lauk ekki fyrr en um klukkan 22:00. Eftir það fór ég á Café Níelsen og hitti þar Sigríði, Steinþór, Guðnýju og Möggu. Spjölluðum þar í góða stund en svo fóru flestir til síns heima...en ekki allir því.....................................(leyndó)

Á sunnudeginum ...................(leyndó)

Í morgun fór ég síðan og sló lóðina hjá Birtu, fékk mér kaffi og spjallaði við Sigríði. Á eftir ætlum við svo nokkur að fara í göngu einhvern staðar í Skriðdalnum. Þar munu ganga ég, Magga, Sigga Bú, Sigríður og kannski fleiri.

21 júní 2007

Ammli

Þetta er búinn að vera þéttur dagur. Vaknaði á Arahólum klukkan 7:30 og hafði mig til fyrir flug til Vestmannaeyja. Klukkan 8 hringdi Aldís Fjóla í mig og söng fyrir mig lagið "Hrognin með kartöflur í hálsinum"...mjög spes. Hún sagði mér alveg fullt sem ég mun blogga um á morgun. Klukkan 9:20 flaug ég ásamt Haffa framkvæmdarstjóra Samfés og Agnari úr Árbæ til Vestmannaeyja og funduðum þar um fyrirhugað landsmót Samfés sem halda á þar í haust.

Í hádeginu var gert fundarhlé og var okkur þá ekið áleiðis á einhvern veitingastað. Hann var niður við bryggju og þegar þangað var komið var mér réttur vindjakki og sagt "til hamingju með daginn". Var svo farið með mig út í gúmmíbát og við sigldum í einn og hálfan tíma í kringum eyjarnar í flottu veðri. Fengum sögur og annað beint í æð og sáum m.a. seli og hvali. Svo fékk ég óvænt brúnkukrem en einhver fuglsgarmurinn náði að drulla í andlitið á mér...það er bara gaman. Eftir siglinguna var síðan etið og svo kláruðum við fundinn, flugum til Reykjavíkur og ég síðan alla leið austur. Núna er ég að spá í að fara á Nielsen en þar er Lóa með eitthvað afmælisteiti en hún á líka afmæli í dag.

20 júní 2007

Sláttur að hefjast

Jæja þá er að hefjast sláttur hér í Árskógunum. Við Hjalti lögga látum ekki smá ósamstöðu slá okkur út af laginu. Við fáum lánaðan slátturtraktor og ég ætla að nota ofur-slátturorfið mitt. Þetta verður heljarinnar heyskapur því grasið er orðið þónokkuð hátt.

Í kvöld fer ég síðan til Reykjavíkur og síðan til Vestmannaeyja í fyrramálið. Þar er undirbúningsfundur vegna landsmóts Samfés sem haldinn verður þar í byrjun október. Ég byrja samt ekki formlega hjá Samfés fyrr en 23. júlí...orðinn frekar spenntur:)

Mig langar svona að lokum spjalla dáldið um málið hennar Jónínu Bjartmarz en í gær var úrskurðað að RÚV hafi brotið siðareglur blaðamanna þegar þeir fjölluðu um málið. Ég hef heyrt fólk enn þann daginn í dag vera að úthúða Jónínu fyrir þetta mál. Jú tengsl hennar við stúlkuna eru ótvíræð en það hefur hvergi komið fram að það hafi ráðið því að stúlkan hafi fengið ríkisborgararéttinn.

Eftir þessa umfjöllun stóð mikill fjöldi landsmanna upp og sakaði Jónínu um misbeitingu valds síns...en það var ekki að gagnrýna þá nefnd sem raunverulega tók ákvörðunina. RÚV og hluti þjóðarinnar dæmdi sem sagt Jónínu þrátt fyrir að hafa engar sannanir fyrir því að hún hafi nokkurs staðar komið nálægt málinu...en vitanlega tengdist hún tengdadóttir sinni.

Á sama tíma birtir síðan RÚV fullt af trúnaðarupplýsingum í sjónvarpinu og fólki virðist vera alveg sama um það!!!! Hvað er í gangi hjá okkur Íslendingum í dag...er okkur sama þó fólk sé "tekið af lífi" án þess að búið sé að sanna sekt þeirra í dag...Er nóg fyrir okkur að fjölmiðlar segi okkur það? Ókey...það eru örugglega einhverjir sem segja að þeir séu sannfærðir um að hún hafi misbeitt valdi sínu en það er enginn sem hefur beinlínis sannað það...og síðast þegar ég vissi þá er maður saklaus þangað til sekt manns er sönnuð.

18 júní 2007

Svakalega gott

Mikið svakalega var gott að koma heim. Við feðgarnir lentum í blíðunni klukkan 15:04...við erum sem sagt formlega búnir í Reykjavíkurogpottlausribústaðarferðinni. Í dag fórum við m.a. í Kringluna og Nauthólsvíkina. Það var bara ágætt. En best af öllu var að koma heim.

Grasið á lóðinni er orðið ansi hátt. Við í Árskógum 1a og 1b höfum verið að ráðgera að kaupa sláttutraktor. Ég náði ekki í neinn í Árskógum 1c áður en ég fór suður en ég sem sagt nánast negldi einn traktor fyrir sunnan í morgun í góðri von um að þau tækju vel í þetta. En annað kom á daginn þannig að það verður ekkert af kaupunum...en það var samt gott að koma heim.

Ég ætla að klára að ganga frá í vinnunni í þessari viku og byrja í fríi um helgina. Ég fer reyndar til Vestmannaeyja á fimmtudaginn vegna Samfés. Ég hlakka mjög til að byrja að vinna fyrir Samfés. Mikið asskoti var gott að koma heim.

15 júní 2007

Feðgar í borginni

Jæja þá erum við Jónatan búnir að skanna borgina aðeins. Byrjuðum að venju að fara á McDonalds...það er reyndar ekki fyrir mig en Jónatan naut þess vel. við fórum svo í Smáralindina og versluðum aðeins þar. Fórum síðan bara og chilluðum í Arahólum og pöntuðum okkur pizzu og kjúlla. Jónatan hámaði þvílíkt í sig að elstu menn muna ekki eftir að hafa munað annað eins. Hann át rúmlega hálfa 15" pizzu...ég sat bara og horfði á meðan herlegheitin fóru fram og passaði mig að vera ekki fyrir. Í morgun fórum við svo á fætur um klukkan níu og átum morgunmat. Fórum svo niðrí bæ og kíktum á verðandi skrifstofu mína og eitt stykki herskip. Eftir það fórum við á smá fund hjá BÍL sem var bara nokkuð gagnlegur. Erum núna staddur á Akranesi að bíða eftir að Friðbjörg og co geri sig klár í bústaðarferð.

Ég reyndar fékk þær hræðilegu fréttir að það væri ekki heitur pottur í bústaðnum...þetta er náttúrulega skandall. En við munum samt gera allt til að skemmta okkur vel.

Setning gærdagsins: Jónatan sagði þegar hann leit yfir borgina rétt fyrir lendingu: "Þetta er bara dáldið stórt þorp".

13 júní 2007

Alltaf fer ég suður

Nú er ég búinn að vera heima í nokkra daga og er þegar farinn að pakka fyrir næstu ferð. Á morgun fljúgum við Jónatan í borg óttans. Við ætlum að skemmta okkur þar á morgun en förum svo á Akranes á föstudagsmorgni. Þar pikkum við upp Friðbjörgu systir og dætur hennar tvær, Aþenu og Hildi Ýr. Við brunum svo í Munaðarnes þar sem við höldum upp á 70 ára afmæli pabba. Á sunnudeginum ætlum við Jónatan að chilla í borginni og njóta hátíðarinnar. Vona bara að við fáum gott veður. Við komum svo heim aftur á mánudeginum.

12 júní 2007

Bannað

Í dag held ég að það sé nokkuð gott lag á hvernig kvikmyndir eru merktar sem bannaðar. Það er sett nokkuð skýrt utan á hulstrin hve gamall maður þarf að vera til þess að horfa á viðkomandi mynd. Aldurstakmarkið fer síðan eftir því hversu "ógeðsleg" myndin er. Með þessu eiga foreldrar auðveldara með að halda börnum frá þeim myndum sem ekki eru ætlaðar fyrir þau. Þegar kvikmyndir eru sýndar í sjónvarpinu er einnig reynt að vara við myndum og er þá lógóið litað gult (Bi 12 ára) og rautt (Bi 16 ára). Þetta er líka mjög þægilegt fyrir foreldra. En þetta er ekki svona alltaf. Í fréttatímum er stöðugt verið að sýna viðbjóðslegar myndir af stríði, morðum og nauðgunum. Þær myndir eru sýndar á kvöldmatartímum og þær myndir eru ekki merktar sem bannaðar. Það er nota bene ekki langur tími á milli barnatímans í sjónvarpinu og fréttatímans. Finnst fólki þetta allt í lagi. Ef ég mætti ráða þá myndi ég ekki láta sýna þessar fréttir fyrr en í tíufréttum og þá með viðeigandi lit á lógóinu. Margt af þessu eru líka ekki fréttir lengur heldur frekar fréttaskýringar...þá á ég t.d. við öll þessi stríð í austurlöndum fjær. Mér finnst að fréttatímar á kvöldmatartíma eigi að vera fyrir alla fjölskylduna.

11 júní 2007

Heima er bezt

Það er gott að vera kominn heim og það var æðislegt að sofa í rúminu sínu. Í dag erum við Silla að klára umsóknina fyrir BÍL...kláruðum reyndar í gær en þar sem vinnutölvan mæin virkaði gátum við ekki alveg klárað. Ég er síðan að byrja að ganga frá í vinnunni áður en ég hætti. Ég heyrði í Jónatan í gær og hann er mjög spenntur fyrir suðurferðinni okkar. Við förum væntanlega á miðvikudaginn suður og chillum þar í 2 daga. Á föstudeginum förum við siðan á Akranes og sækjum Friðbjörgu systir og dætur hennar. Þaðan förum við svo í Munaðarnes og eyðum þar helginni með familíunni en pabbi gamli ætlar að halda upp á sjötugsafmælið sitt þar. Hugsa að við Jónatan komum aftur heim á mánudaginn.

09 júní 2007

Frábær vika

Já það er svo sannarlega hægt að segja að vikan hafi verið viðburðarík. Ég er sem sagt kominn heim að sunnan úr frægðar för:) Hér á eftir ætla ég aðeins að rifja ferðina upp.

Mánudagur: Ég fór suður með Fokker 50. Ég steinsvaf í vélinni en vaknaði við öskur og læti...vélin var að lenda sem sagt og fékk á sig hliðarvind í lendingunni. Við það hallaðist vélin og lenti síðan á vinstra hjólinu...skaust svo upp í loftið aftur og lenti síðan á því hægra en vinstra hjólið fylgdi síðan fast á eftir...en ég sem sagt glaðvaknaði. Ég tók á leigu bílaleigubíl og fór beint í Hitt Húsið en þar mætti ég í atvinnuviðtal hjá Samfés. Þeir voru sem sagt að auglýsa eftir framkvæmdarstjóra og var ég einn af 8 umsækjendum. Við vorum síðan 3 valdir til þess að mæta í viðtal. Viðtalið gekk bara vel og leið mér mjög vel eftir það. Eftir viðtalið fór ég síðan í Þjóðleikhúsið að kanna aðstæður...þar var tekið vel á móti mér og fórum við yfir það sem gera þurfti. Ég gerði það sem gera þurfti og var búinn að því svona um fimm leitið. Um kvöldið fór ég síðan í mat hjá mömmu og pabba. Fékk þar fínan kjúkling með frönskum.

Þriðjudagur: Ég vaknaði snemma og fór niðri Aðalflutninga til þess að leiðbeina þeim með leikmyndina. Fór síðan upp í Þjóðleikhús á smá fund sem gekk mjög vel. Klukkan tvö fékk ég síðan hringingu frá Samfés þar sem mér var sagt að ég fengi starfið...ég er sem sagt orðinn framkvæmdarstjóri Samfés. Stuttu eftir það sótti ég Unni, Pétur, Eygló og Fjólu á flugvöllinn. Eygló skutlaði ég síðan í Mosó en Fjóla fór til dóttur sinnar...við hin fórum í Kringluna. Um kvöldið borðuðum við síðan saman...ég, Oddur Bjarni, Unnur, Eygló og Lóa en við snæddum dýrindis máltíð á Ning´s. Eftir það skiptum við Oddi út fyrir Óttar (kærasti Lóu) og fórum í bíó. Við sáum Pirates of the Carabbian í VIP sal...það var þægilegt og myndin var bara nokkuð skemmtileg.

Miðvikudagur: Ég og Unnur fórum snemma niðrí Þjóðleikhús og hittum þar Odd Bjarna og Ásdísi...ræddum þar nokkur mál og eftir það fórum við og versluðum það sem eftir var að versla. Klukkan þrjú kom síðan Aðalflutningar með leikmyndina...þeir reyndar þurftu að koma þrisvar sinnum því það kom í ljós að þeir gleymdu einu bretti og síðan gleymdu þeir göngugrindinni. En þetta skilaði sér allt. Allir sem enn tóku nú til við að henda leikmyndinni upp og fengum við aðstoð frá sviðsmönnum Þjóleikhússins. Þeir voru vægast sagt frábærir og var aldrei neitt vesen. Samhliða þessu var síðan unnið í ljósum. Klukkan tíu var síðan allt komið upp og fórum við þá upp á gistiheimili en Unnur var eftir til að mála leikmyndina. Ég, Solla, Eygló og Fjóla fengum okkur síðan einn öl fyrir svefninn.

Fimmtudagur: Vorum mætt upp í leikhús klukkan tíu og var þá byrjað að kjúa inn ljósin. Það tók reyndar ansi langan tíma og fór það reyndar þannig að því lauk ekki fyrr en um klukkan fjögur. Þá var tekið létt tæknirennsli og svo fengum við pásu klukkan sex. Þá fórum við og gleyptum í okkur en við vorum mætt aftur um sjöleytið. Sýningin hófst svo klukkan átta og við vorum að sjálfsögðu með rauða lukt ( þýðir að það var uppselt). Sýningin heppnaðist mjög vel og áhorfendur tóku okkur frábærlega. Eftir sýninguna var síðan Þjóðleikhúsið með móttöku fyrir okkur og gaf okkur blóm og steinflís úr vegg þjóðleikhússins. Einnig fegnum við snyttur og léttvín. Þegar þessu lauk fórum við á tónleika með Ljótu hálfvitunum. Þeir voru alveg frábærir.

Föstudagur: Fórum allt of snemma á fætur...en við vorum bara svo svöng. Ég bauð upp á morgunverðarhlaðborð í stráka-íbúðinni og eftir það var farið að versla í Kringlunni. Ég verslaði alveg helling og er bara sáttur við það sem ég keypti. Ég, Solla og Eygló eyddum svo saman deginum en ég er ekki frá því að þær hafi gengið í barndóm þennan dag...Um tvö leitið fórum við síðan og hvíldum okkur fram að sýningu. Klukkan fjögur fékk ég meldingu frá Þjóðleikhúsinu að það væri uppselt og allar línur rauðglóandi. Það þýddi það að við fengum rauða lukt en það telst mikill heiður. Sýningin tókst síðan frábærlega vel og áhorfendur voru æðislegir. Eftir sýningu fórum við svo í partý í Hljómskálann en hún Bára Siggulárusystir reddaði okkur því. Þar var mikið grín og glens en um klukkan þrjú var svo farið á pöbbinn. Við eldri borgarar vorum reyndar alveg búnir á því og fórum bara heim í háttinn.

Laugardagur: Ég vaknaði alveg dauðþreyttur um klukkan tíu. Fann Steinar Pálma inn í herbergi en hann hafði einhvernveginn náð að skila sér heim. Við pökkuðum niður og fórum í Kringluna og fengum okkur kaffisopa. Klukkan hálffjögur vorum við síðan mætt á flugvöllinn og tékkuðum okkur inn. Þegar síðan var kallað út í vél varð mér litið á flugmiðann minn og sá að ég hét Fríða Margrét Sigvaldasóttir...ég hugsaði með mér að þetta gæti bara gerst fyrir mig og fór í afgreiðsluna þar sem 5 stúlkur voru með smá saumaklúbb. Þær hlógu smá að mér og sögðu að ég væri bara fín Fríða. Þegar ég svo kom í röðina aftur tók ég eftir því að röðin hafði ekkert færst áfram...ung stúlka var í einhverjum vandræðum við hliðið:D

En sem sagt frábær ferð og þúsund þakkir til allra sem tóku þátt í þessu ævintýri okkar:)

03 júní 2007

Samsæri 9/11

Þær kenningar að eitthvað hafi verið gruggugt við árásina á Pentagon 11. september 2001 eru að verða sífellt háværari. Ég hef aðeins verið að skoða þetta á netinu og verð að segja að þeir sem halda því fram að ekki sé allt með felldu hafi eitthvað til síns máls. Af öllum þeim myndum sem teknar voru þennan dag sést hvorki tangur né tetur af vélinni. Rannsóknir fræðimanna sýnir það líka að það sé afar ólíklegt að skemmdirnar séu eftir flugvél...líklegra sé að þær séu eftir flugskeyti. Þetta segja þeir af því að það eru engin ummerki eftir vængina á Boing 757 sem átti að hafa flogið á Pentagon. Sé þetta satt liggur beinast við að beina augunum að Bandaríkjastjórn...var þetta allt saman sjónarspil til þess að fá stuðning við stríð? Var á milli 3-4000 manns fórnað til þess? Hvað mig varðar þá gæti ég alveg trúað því á Gogga litla Bush! Hann er nú ekki eins og fólk er flest. Ég læt hérna fylgja nokkrar síður sem ég fann um þetta allt saman.

Samsærissíða 1
Samsærissíða 2
Samsærissíða 3
Vídeó (horfið vel hægra megin á 1:26)
Annað vídeó

02 júní 2007

Sprækur

Í gærkveldi kom til mín gott fólk. Það voru þau Oddur Bjarni, Jón Gunnar og Dandý OSOS sem kíktu á mig til þess að horfa á England-Brasilía. Við grilluðum og drukkum eðal-gott rauðvín með. Góður matur, gott vín og frábær félagsskapur. Oddur Bjarni flutti svo frá mér í morgun og kvöddumst við með táraflóði:D

Dandý kíkti síðan á mig í morgun til þess að sækja leyndó pakka...en hún er að halda upp á afmælið hennar Söndru í dag....sú á eftir að verða glöð þegar hún sér pakkann.

Ég fór á Stöðvarfjörð klukkan 10 í morgun að sækja Jónatan. Þar var vel tekið á móti manni að vanda. Við Jónatan ætlum síðan að njóta dagsins og ekki útilokað að við kíkjum í Atlavíkina og jafnvel inn í Skriðuklaustur. Í kveld munum við svo grilla og borða á okkur gat.

31 maí 2007

Vika

Jæja þá er bara ein vika þangað til við förum í Þjóðleikhúsið og ég er að verða virkilega spenntur. Við munum öll (já eða næstum öll) gista á Duna Guesthouse þá daga sem við verðum fyrir sunnan. Þetta verður alveg rosalega gaman.

Í gærmorgun fékk ég sms frá Unni þess efnis að Hrafnkell A. Jónsson væri dáinn. Hann var búinn að berjast við krabbamein í einhvern tíma og hafði meinið betur síðastliðna nótt. Hrafnkels verður sárt saknað.

En þá að öðru...Oddur Bjarni er allur að koma til í FIFA 2007 og er það bara ágætt. Hann vann nokkra leiki í nótt...tvo. Við reyndar spiluðum ekki lengi því ég var dottlið þreyttur og fór snemma að sofa miðað við hver venjan er orðin.

Í kvöld verður síðan síðasta rennsli áður en við förum suður. Annað kvöld ætlum ég, Jón Gunnar og Oddur að grilla og horfa á England-Brasilía. Það verður bara næs. Ég ætla síðan að vera með Jónatan um helgina og munum við vafalaust fara í Atlavíkina því það spáir frábæru veðri.

30 maí 2007

Mér er illt í puttanum

Jæja þá er sumarið loksins komið. Sólin skín, fuglarnir syngja, fiskarnir hoppa og allir eru bara eitthvað svo glaðir. Ég hlakka mjög til sumarsins og ætla að ferðast alveg helling. Ég ætla að leggja áherslu á að skoða þá staði sem ég á eftir að skoða hér fyrir austan og þeir eru þó nokkrir. Tildæmis á ég eftir að ganga Stór-Urðina og verður það sett í forgang 1. Einnig á ég eftir að skoða svæðið frá Höfn að Djúpavogi og fer það í forgang 1.5...og svo er það náttúrulega fastir liðir eins og venjulega en það eru t.d. Borgarfjörður, Sænautasel, Mjóifjörður, Kárahnjúkar og svo ætla ég að taka hálendisvakt með Björgunarsveitinni.

Við kláruðum að hjakka í gegnum leikritið í gærkveldi og næstu tvö kvöld verðum við með rennsli. Um helgina förum við síðan í að pakka inn leikmyndinni og sendum hana suður á þriðjudag. Það eru níu manns sem eru að fara suður og ætlum við að reyna að fá gistingu á einhverju gistiheimili.

Oddur Bjarni flutti inn til mín í gærkveldi og verður fram að helgi. Við höfum fundið okkur þrusugott hobbý en það er FIFA 2007 leikurinn. Ég tók hann í bakaríið í gærkveldi og var hann ekki sáttur við það...ég fór að sofa klukkan tvö en hann ákvað að æfa sig þannig að hann ætti meiri séns...veit ekki hvað hann var lengi en ég á örugglega von á hörku mótsspyrnu í kvöld.

29 maí 2007

Allt að koma

Æfingar ganga mjög vel hjá okkur og mér fynnst dagarnir líða undarlega hratt. Það er allt í einu kominn þriðjudagur og orðið minna en vika þangað til ég fer suður. Pétur og Steinar Pálmi mættu á fyrstu æfinguna sína í gær og stóðu sig með prýði. Steinar Pálmi verður hljóðmaður hjá okkur en sá sem var með okkur í vetur kemst ekki.

Mér fynnst afþreyingar menningin hérna á Egilsstöðum alveg til skammar. Í fyrrakvöld ætluðum ég, Dandý og Steinunn að skella okkur á kaffihús. Ég var að æfa til ellefu og við fórum á Café Nielsen klukkan hálf tólf en þá var verið að loka staðnum og reka alla út! Nota bene...það var frídagur daginn eftir. Við vorum náttúrulega hissa en ákváðum samt að hengja ekki haus heldur fórum niðrá Hótel Hérað. Þar hittum við fyrir næturvörðinn sem sagði okkur að við gætum fengið okkur skyndikaffi því hótelið myndi loka eftir 20 mínútur! Þá voru góð ráð rándýr en við ákváðu sem sagt að fá okkur skyndikaffi...sem reyndar varð ekki skyndikaffi því næturvörðurinn læsti okkur inni og hleypti okkur ekki út fyrr en klukkan tvö. Þá fórum við aðeins á rúntinn en það var allt steindautt...meira að segja Hetjan var næstum tóm.

27 maí 2007

Gott er að vakna glaður og hress

Þá er Oddur Bjarni leikstjóri kominn austur til okkar og æfingar því formlega hafnar. Fórum í gegnum allt leikritið í gær og það gekk bara mjög vel. Það var reyndar dáldið skrýtið að fara í hlutverkið aftur en mjög gaman.

Í gærkveldi var síðan fagnaðar partý heima hjá Fjólu. Þar var grillað, etið og drukkið fram eftir nóttu. Á grillið var settur þurrkryddaður Jóhannes og rann hann vel ofaní veislugesti...við þökkum Bónus fyrir matinn. Eftirtaldir létu sjá sig í partýinu: Fjóla the Host, Bjössi the Man, Víðir smiður, Una fyrrverandi smiðsfrú, Unnur leikmyndahönnuður, Steinar Pálmi tilvonandi hljóðmaður, Eymundur leikmyndageimir, Evelyn traktorgella, Hollywoodstjarnan, Lóa Leika, Eygló líka, Dr Siggi, Silla gjaldkeri, Sigríður perraskáld, Skotta perraskáldshlustari, Oddur Bjarni leikstjóri, Sigga Lára höfundur, Bára the Saxofón, Guðjón Sigvalda, Lubbi Klettaskáld, Halldóra Malen, Stebbi Ben, Steini Von Höfn og Róbert Fjólusonur. Sem sagt hörkugott partý.

25 maí 2007

13 days

Í dag eru 13 dagar þangað til við sýnum í Þjóðleikhúsinu. Miðasalan fer vel af stað en það er uppselt á fyrri sýninguna. Við fórum í samlestrar-roadtrip í gær en þá keyrðum við á Höfn og til baka...tókst bara mjög vel. Í kvöld ætlum við síðan að fara út í Eiða og fara yfir allt props og búninga. Oddur Bjarni kemur síðan á morgun og þá hefjast æfingar...reyndar bara samlestur á laugardegi og svo æfing á sunnudegi. Svo er það náttúrulega fagnaðarpartý annað kvöld en þá ætlum við að koma saman hjá Fjólu, grilla og skemmta okkur fram eftir nóttu. Geimið byrjar klukkan 21:00 og eru allir velunnarar LF velkomnir.

24 maí 2007

Dáldið leiður

Jamm...þá er leikurinn búinn og hann fór nú ekki vel. Bjargaði öllu að horfa á hann í góðum félagsskap:) Við grilluðum dýrindis mat og drukkum öl og vín...bara asskoti næs.

Partý á laugardagskveldið klukkan 21:00 hjá Fjólu á Brávöllum 12. Þar ætlum við að fagna Listinni að lifa. Allt leikfélagsfólk og áhugafólk um leiklist eða bara allir sem vettlingi geta valdið að mæta og kyssast og knúsast aðeins.

23 maí 2007

Spennustigið

Já það er óhætt að segja að spennustigið hækki með hverri mínútunni. Stórleikur í kvöld...Liverpool-AC Milan. Öllum er hér með boðið í grill til mín klukkan 18.30 en leikurinn byrjar 18.45:D Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir. Fór upp í Fellaskóla áðan og hitta Drífu Sig og spurði hún mig hvort ég ætlaði ekki að koma á tónleika klukkan 18:00. Jónatan á að spila!!! Eftir smá formælingar og fortölur um tímasetninguna fór ég að reyna að skipuleggja tímann...Jónatan á að spila fyrstur þannig að þetta grásleppur. Ég fæ Jón Gunnar bara til að kveikja á grillinu.

Annar samlestur var hjá okkur í gærkveldi og viti menn....við þurftum ekki handrit!!! Eða svona næstum því ekki. Við ætlum að hittast heima klukkan 21 í kveld og svo á að fara í samlestrar road-trip á fimmtudaginn. Þá ætlum við leikararnir að fara á Höfn og lesa saman á leiðinni...þetta er viðurkennd samlestrar aðferð í mörgum löndum og ég veit t.d. að BENELUX löndin hafa gert þetta með góðum árangri.

Byrjað var að reisa leikmyndina í gærkveldi en þar mættu þau Unnur, Pétur, Jón Gunnar, Víðir, Steinar Pálmi, Fjóla og Solla. Unnur sá fram á að þetta væri allt of fjölmennt og sendi þá Steinar og Pétur heim...ég man ekki til að þetta hafi gerst áður hjá leikfélaginu!

Að lokum....You Never Walk Alone

22 maí 2007

Enginn tómatur

Jæja þá erum við formlega byrjuð að æfa Listin að lifa. Við lásum tvisvar yfir handritið í gær og ótrúlegt en satt...við nánast kunnum þetta ennþá. Það er ótrúlegt hvað svona situr lengi í heilabúinu. Við náum vonandi 2-3 samlestrum áður en Oddur Bjarni kemur. Leikmyndin fer upp í kveld þannig að þetta er allt að gerast.

Ég lenti í dáldið skrýtnu síðast þegar ég tók bensín. Bíllinn minn var nánast tómur og ég fór því á bensínstöð og dældi 55 lítrum af bensíni á tankinn...kostaði ca. 6.504 krónur. Síðan rölti ég inn í rólegheitunum og fer í röðina. Fremstur í röðinni var einhver útlendingur sem var greinilega ekki sáttur...hann reifst og skammaðist á þýsku en afgreiðslumaðurinn skildi ekkert...hann sagði bara euro euro eitthvað og alltaf versnaði skapið í þjóðverjanum sem að lokum rétti afgreiðslumanninum pening og rauk síðan blótandi og ragnandi út. Þegar síðan kom að mér spurði afgreiðslumaðurinn hvað hann gæti gert fyrir mig. Ég sagði honum að ég væri með bensín á dælu 5. Afgreiðslumaðurinn horfði þá á mig tómum augum leit síðan á peningakassann og svo aftur á mig....og sagði...Útlendingurinn borgaði fyrir þig!!! Og það sem meira var... útlendingurinn var ekki einu sinni á bíl!!!

21 maí 2007

Hvað er rautt og sést ekki?

Jæja þá er loksins komin sól á Héraði og brosið færist í leiðinni yfir andlit Héraðsmanna. Ég var í fimmtugsafmæli klukkan níu í morgun en hann Sverrir Gestsson er búinn að lifa af í hálfa öld...geri aðrir betur...eða já pabbi minn hefur gert betur því hann verður sjötugur 18. júní...geri aðrir betur. Hann ætlar að halda upp á afmælið í Munaðarnesi í bústað...þar verður chillað í heita pottinum með hamborgara í annari og pizzu í hinni...eða eitthvað.

Ég fór að borða á Nielsen í gærkveldi með Lóu, Sigríði og Skottu. Fékk mér spjót með allskonar gummsi...very good. Spiluðum svo í smá stund en svo var bara farið að sofa enda dáldið ryðgaður eftir laugardagskvöldið. Í kvöld verður síðan fyrsti samlestur hjá okkur leikurunum og er ég mjög spenntur:)

Oddur Bjarni kemur líklega um næstu helgi og ætlum við að byrja á smá partýi þar sem við fáum eins marga og við getum til þess að koma og fagna með okkur. Ef það verður gott veður ætlum við að grilla úti en ef það verður vont veður ætlum við að grilla úti. Allir sem vettlingi geta valdið mæti og fagni fagni fagni.

20 maí 2007

Kallinn fór á ball

Já það kom að því að kallinn skellti sér á ball í gærkveldi en það hefur ekki gerst í mörg ár. Ég byrjaði á því að fara í partý til Lóu en það var hálf-undarlegt partý...maður var pýndur til að fara í twister...það var ekki gaman. En síðan fórum við leirspilið og það var ágætt....svo var líka farið í einhvern leik sem kallaðist knúsum Óttar...það var hálf skrýtinn leikur og ég skildi hann ekki alveg. Eftir þetta partý fórum við í partý til Ingu og Halla en þar var 3 fleira fólk en í hinu partýinu. Stoppuðum ekki lengi þar heldur röltum á ball. Ballið byrjaði ágætlega en svo varð alveg stappað inni...það var ekki alveg nógu gott. Ég hitti Dandý í mýflugumynd en svo virðist sem hún hafi verið numin á brott af geimverum. Þetta var annars ágætis skemmtun.

Í morgun kláruðum víð síðan að flytja leikmyndina...sem er frábært og þá sérstaklega miðað við heilsu mina en hún er ekki alveg eins góð og í gær:D Núna er ég síðan að fara á Café Nielsen að borða með Lóu og svo ætla ég að SOFA!!!

19 maí 2007

Hundleiðinlegt veður

Í dag er alveg hundleiðinlegt veður og það er reyndar búið að vera þannig í nokkra daga. Norðan átt með kulda og trekki. Þetta er reyndar alls ekkert ósvipað því sem það var fyrir nákvæmlega ári síðan. Fyrir ári síðan vorum við að leita að honum Pétri Þorvarðarsyni en hann hafði gengið frá Grímsstöðum að næturlagi. Hann fannst látinn 21. maí 2006 en menn telja að hann hafi gengið 70-90 kílómetra. Ég er búinn að hugsa mikið til þessa atburðar undanfarið og er að átta mig meira og meira á því hversu mikið þetta tók á mann...og þá í leiðinni hversu mikið áfall þetta var fyrir fjölskyldu hans. Í sumar ætlum við að reyna að fara með fjölskyldu og vinum Péturs heitins þá leið sem hann gekk. Það verður þó aldrei fyrr en í lok júní byrjun júlí.

En þá að öðru. Í gærkveldi fór ég með Lóu, Sigríði (sem er nýbyrjuð að vinna í Birtu), Óttari og Justin Timberlake á Café Nielsen. Þau fengu sér rauðvín og bjór en ég bað um eitthvað óáfengt...og Hólý Mólý...drykkurinn sem ég fékk var bleik-fjólublá-órange rauður á litinn...en bragðið vandist þannig að þetta var allt í lagi. Fljótlega voru tekin upp spil og við spiluðum Stress, Lýgi, Ólsen og Ólsen og Ólsen og Ólsen upp og niður til klukkan að verða tvö. Þarna var um hörku keppni að ræða og ómögulegt að segja um hver vann en það eru nokkrir klóraðir, bitnir og marðir eftir keppnina...Eftir spilamennskuna vildu Lóa, Óttar og Justin Timberlake fara á Hetjuna og keyrði ég þau yfir. Þar var nú ekki margt um manninn eða í raun varla nokkur hræða....við sáum reyndar einn mann ganga frá barnum og inn á klósett...ekki það að það skipti neinu máli. Við ákváðum þá bara að kvöldið væri búið og fórum heim. En kvöldið var bara mjög skemmtilegt:)

18 maí 2007

Atvinnuleit

Jæja í dag hóf ég formlega atvinnuleit en eins og margir vita sagði ég nýlega upp starfi mínu sem forstöðumaður félagsmiðstöðva. Ég var að senda inn umsókn til Samfés en þeir eru að auglýsa eftir framkvæmdarstjóra. Þetta er starf sem mig langar virkilega mikið í og verð ofsakátur ef ég fæ hana. Það þýddi reyndar það að ég þyrfti að flytja suður(vá hvað það voru mörg þorn í þessari setningu) sem er ekki alveg mitt uppáhald.

En það er samt ekkert víst að ég fái þetta starf þannig að nú er maður með alla anga úti og tilbúinn í hvað sem er...svona næstum því...mig langar t.d. ekkert til þess að vinna sem t.d. bresk götuhóra...hí hí hí.

17 maí 2007

Skýrsla sendinefndar

Sendinefndin hefur lokið störfum sínum. Þau Oddur Bjarni, Guðrún og Unnur fóru á fund Þjóleikhússins og komu þaðan himinlifandi. Ákveðið var að sýna í Kúlunni fimmtudaginn 7. júní og ef það verður uppselt á þá sýningu munum við sýna aðra sýningu föstudaginn 8. júní.

Oddur Bjarni ætlar að koma í kringum hvítasunnu helgina og ætlum við að byrja æfingar á því að fá alla aðstandendur sýningarinnar saman, grilla og fagna öll saman í eitt skipti fyrir öll. Það væri svakalega gaman ef allir gætu komið í grillveisluna...kannski fæ ég að verða veislustjóri aftur!!!

Eftir hádegi ætlum við að sækja leikmyndina í hlöðuna í Vallanesi og flytja hana útí Eiða. Við getum reyndar ekki byrjað að henda henni upp fyrr á laugardag þar sem það eru einhverjar 80 kammer-konur þar núna. Við notum síðan helgina til þess að setja leikmyndina upp og byrjum að æfa í henni í næstu viku. Mikið fjör...mikið gaman...mikið grín.

16 maí 2007

Home sweet home

Þá er seinni bústaðarferðin búin og tókst hún með eindæmum vel. Byrjuðum klukkan 18 í pizza-hlaðborði og fórum svo inn í Einarsstaði. Þar vorum við í fótbolta til svona ellefu og klukkan tólf fóru allir inn í sinn bústað en við vorum með 3 bústaði. Við vorum bara 4 í mínum bústað en við skemmtum okkur bara vel. Ég sagði draugasögur til klukkan 3 en þá fóru allir skjálfandi að sofa...þetta er dáldið góð brella því það þorir enginn að vera á ferli eftir svona krassandi draugasögur.

Og þá að Þjóðleikhúsmálum. Sendinefndin er farin að kanna aðstæður. Það eru þau Oddur Bjarni, Unnur og Guðrún sem eru sendiherrar og frúr okkar. Það kemur þá endanlega í ljós hvort við sýnum í Kassanum eða Kúlunni og hvort það verði ein eða tvær sýningar. Á morgun förum við síðan með leikmyndina út í Eiða og reynum að vera eins dugleg og við getum við að koma henni upp.

Jónatan er að spila á sínum fyrstu tónleikum í dag og ég er mjög spenntur að sjá hann:)

En nú er ég lúinn og ætla að ná mér í smá kríu.

15 maí 2007

Sumarbústaður

Jæja þá er komið að seinni 10. bekkjarsumarbústaðarsamræmduprófslokaskemmtiferðardæminu. Herlegheitin byrja klukkan 18:00 í Söluskálanum með smá pizzu áti. Síðan verður farið inn í Einarsstaði og tjúttað fram á nótt. Í hádeginu á morgun grillum við og förum síðan heim aftur og verðum komin svona um eitt leytið.

Á morgun ætlum við svo að flytja leikmyndina út í Eiða og byrjum að henda henni upp og æfum alla helgina....ekki veitir af því tíminn flýgur áfram. Mér leist reyndar ekki á blikuna í gær því all out of a sudden rauk upp í mér hitinn og varð bara þræl veikur en ég náði að sofa í mig bata og er svona nokkurn veginn eðlilegur í dag...eða svona eins eðlilegur og ég get orðið.

Það hefur nú lítið gerst í pólitíkinni...framsókn og íhald eru að ræða saman. Ég eiginlega vona að framsókn dragi sig út úr stjórnarsamstarfinu...og að þeir verði í stjórnarandstöðu næsta tímabil. Þannig er sterkara að byggja flokkinn upp að nýju og þá gæti hann komið sterkur inn í næstu kosningum. Það alla vegna má ekki gerast að framsókn fari með stjórnarandstöðuflokkunum í ríkisstjórn. Þau hafa allt kjörtímabilið ráðist á framsóknarflokkinn og framsóknarfólkið og í flestum tilfellum mjög óverðskuldað og mörg ófögur orð fallið...en nú allt í einu þurfa þau á framsókna að halda...ég segi ekki meir...jú...Ó MY GOD!!!!

14 maí 2007

Listin að lifa

Jæja þá er byrjað að selja miða á Listin að lifa sem sýnd verður í Þjóðleikhúsinu 7. júní...linkurinn er hér . Mér finnst samt alveg ótrúlegt að það þurfi alltaf að setja þessa mynd með öllum auglýsingum...ekki viss um að þetta selji. Við sáum nú hvað gerðist þegar þetta var sýnt hér fyrir austan...myndirnar voru prentaðar í stórum stíl á stærðar plaggöt og...the rest is history. En samt...væri gaman ef fólk myndi nú koma og sjá sýninguna.

Ég reddaði æfingarhúsnæði áðan en við fáum að setja upp leikmynd og ljós út á Eiðum. Það er nú smá léttir að vera þó allavegna búinn að því. Við ætlum síðan að senda sendinefnd frá okkur í Þjóðleikhúsið til þess að kanna aðstæður og ræða við tæknimann og annan.

Kosningaúrslit

Jæja þá er kosningunum lokið og óhætt að framsóknarmenn riðu ekki feitum hesti úr þessum kosningum. Annars fór þetta svona:

X-B: 11.7% á landsvísu og 7 þingmenn. Missa 5 þingmenn og 6% fylgi. Það er ljóst að flokkurinn á erfitt en ekki þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna fyrir helv...hann. Flokkurinn kemur samt ágætlega út á landsbyggðinni og fær alla sína þingmenn þar.

X-D: 36.6% á landsvísu og 25 þingmenn. Bæta við sig 3 þingmönnum og 2.9% fylgi. Koma gríðarlega vel út úr kosningunum og ég eiginlega skil ekki afhverju!!! Jú Geir er nottla fínn kall en ekki voru allir að kjósa hann...eða hvað. Þorgerður Katrín vann reyndar líka gríðarlegan sigur í sínu kjördæmi. En Sjálfstæðisflokkurinn er klárlega sigurvegari kosninganna.

X-F: 7.3% á landsvísu og 4 þingmenn. Halda sínum 4 þingmönnum og bæta við sig 0.1% fylgi. Sigurjón Þórðarson komst ekki inn á þing en hann er búinn að ríða um héröð hér síðan hann ákvað að færa sig úr norðvestur kjördæmi í kjördæmið mitt.

X-I: 3.3% á landsvísu og engann þingmann. Ómar er ekki öfundsverður þessa dagana. Steingrímur J nýtir hvert tækifæri sem gefst til þess að minna hann á að Íslandshreyfingin hafi orðið til þess að stjórnin hélt velli. Ómar heldur því þó statt og stöðugt fram að hann hafi tekið flest atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum...aha...right.

X-S: 26.8% á landsvísu og 18 þingmenn. Tapa 2 mönnum og 3.2% fylgi. Og samt segir Ingibjörg að Samfylkingin sé sigurvegari!!!

X-V: 14.4% á landsvísu og 9 þingmenn. Bæta við sig 4 mönnum og 5.6% fylgi. Gríðar góð útkoma hjá þeim en samt ekki eins góð útkoma og kannanir höfðu sýnt. Virðist eitthvað hafa gerst á síðustu metrunum sem varð til þess að fólk ákvað að styðja ekki Vinstri-Græna.

Þetta voru gríðarlega spennandi kosningar og vafalaust mest spennandi kosningar sem ég hef orðið vitni af.

En yfir í annað...við erum að leita logandi ljósi að æfingahúsnæði fyrir leikritið okkar. Iðavellir eru uppteknir og Sláturhúsið hentar ekki. Ætlum að athuga með Eiða í dag og vonandi gengur það. Skoðuðum leikmyndina í gær og er hún í þokkalegu standi.

12 maí 2007

Asskoti fínn

Jæja þá er komið að kosningadeginum mikla. Við Jónatan sváfum fram eftir...hann vaknaði klukkan 9 og fór að horfa á barnaefni og ég dormaði aðeins lengur. Við fórum síðan í kosningabíltúr og kíktum í kosningaframsóknarkaffiveislu. Þar var ofur kaffi-hlaðborð...brauðréttir, brauðterta, pönnukökur, kleinur, tertur, kökur, flatbrauð m/hangikéti og örugglega margt fleira. Jónatan borðaði á sig gat en hann fór 5 ferðar!!! Svo settist hjá okkur kona með hlaðinn disk...hún byrjaði strax að fárast yfir því að eitthvað hlyti þetta nú að kosta og lét í það skína að þarna væri um skattpeningana okkar að ræða. Ég útskýrði þá fyrir henni að það væru félagsmenn sem myndu alfarið sjá um að versla inn og baka og þetta væru þeirra peningar...þá ljómaði hún öll spændi í sig matinn...mig grunar að hún sé þarna enn þá. Síðan settist hjá okkur Villi nokkur á Brekku og sagði okkur gamlar kosningasögur...hann er alltaf hress kallinn.

Eftir kaffið fórum við síðan að kjósa en það er bara einn kjörstaður í sveitafélaginu og held ég að það hafi ekki verið góð hugmynd. Ein kjördeildin var svo stýfluð að það var biðröð langt útá bílaplan. Ég var í óstýfluðu kjördeildinni þannig að ég var enga stund að kjósa rétt.

Í kvöld ætlum við Jónatan síðan að grilla saltfisk og hörpudisk og horfa síðan á sjónvarpið með nammi og gos. Jónatan sofnar örugglega klukkan níu eins og vanalega en ég ætla að vaka eftir úrslitunum. Ég er dáldið spenntur og vona svo innilega að stjórnin haldi með svona 4-5 mönnum. Ég held að það sé ekki gott fyrir okkur Austfirðinga að fá vinstri stjórn. En nóg í bili...eigiði góðan dag, skemmtilegt kvöld og spennandi nótt:)

11 maí 2007

Skárri

Jæja...nú er maður aðeins búinn að ná sér eftir Evróvision og lífið heldur áfram. Er að skipuleggja seinni sumarbústaðarferðin með 10. bekkinga. Sú ferð verður á þriðjudag og vænti ég þess að það verði bara gaman. Síðan er allt að fara á fullt í leiklistinni...styttist óðum í þjóðleikhúsferð. Ætlum að fara að kíkja á leikmyndina á sunnudag og reyna að finna okkur húsnæði til þess að setja hana upp. Iðavellir eru ekki lausir þannig að við þurfum að leita að einhverju öðru. Ætli það endi bara ekki með því að við setjum hana upp í stofunni hjá mér!!!

Ég fór í kaffi niðrí Birtu í morgun...og áður en ég vissi voru Birta og Lóa búnar stilla mér upp á miðju verslunargólfinu og voru að máta á mig gleraugu...en mig langaði bara í kaffi. En sem sagt...ég er að fá mér ný gleraugu...mig langar samt meira í kaffi!!!

Svo er það að kjósa á morgun...

10 maí 2007

Hundfúll

Já ég er alveg hundfúll yfir því að hann Eiki sé ekki í úrslitum...og að sjá austantjaldsþjóðirnar raða sér í öll sætin...það er eitthvað verulega skrýtið við þetta. Ég held samt að við ættum ekki að hætta að keppa í keppninni heldur aðlaga okkur að henni. Á næsta ári ættum við því að semja við eitthvað þekkt pólsk tónskáld og biðja það að semja fyrir okkur hressilegann polka. Fá síðan pólskt verkafólk til þess að flytja lagið fyrir okkur. Með því myndum við fljúga inn í úrslitin og vinna næstu keppni.

En kvöldið var þó ekki alslæmt...ég, Unnur og Jónatan fórum í grill til Jóns og Sillu og var þar etið, drukkið, spjallað og hlegið...það er alltaf gott að koma til Jóns og Sillu. En núna er ég orðinn lúinn og er að spá í að fara að sofa. Egglosverkurinn hefur ekki vart við sig aftur og Vibba...sko ef að ég er með egglos...þá er ég varla óléttur...eða hvað?

Go Eiki

Jæja þá er ég kominn heim úr sumarbústaðarferðinni og þetta gekk alveg frábærlega vel. Það mættu 27 unglingar og allir skemmtu sér konunglega. Ég fer síðan með annan hóp 15. maí og þá er það búið.

Í kvöld er það síðan Eurovision...júhú...ég fer til Jóns og Sillu og ætlum við að grilla og hafa það næs. Ég vona svo sannarlega að hann Eiki kallinn komist áfram. Þá verður sko gaman á laugardaginn:) Kosningasjónvarp og Eurovision...það hljómar sem ágætisblanda. Ég hugsa að Jónatan verði hjá mér og munum við vafalaust djamma fram eftir kveldi og chilla með hamborgara í annari og pizzu í hinni. Ég hlakka mjög mikið til.

Að lokum er það síðan mál málanna í dag en það er egglosverkurinn!!! Einhver sagði mér að svona verkir væru algengir og þeir myndu vara í 2-3 daga...þeir eru að vísu ekki algengir hjá KARLMÖNNUM!!! En jú verkurinn var farinn á 3ja degi þannig að það stemmir allt...en samt...Sko ókey ef ég væri með egglos...hvert ætti eggið þá að fara þegar það losnar? Sko miðað við verkinn þá var um strútsegg að ræða þannig að það ætti ekki að fara fram hjá manni!!! Að þessu sögðu held ég að þarna hafi ekki verið um egglos að ræða heldur eitthvað annað.

09 maí 2007

Þjóðleikhús

Jæja þá er búið að ákveða hvenær við sýnum Listin að lifa í Þjóðleikhúsinu. Það verður sem sagt 7. júní næstkomandi. Ég þarf að fara að grafa upp handritið aftur því það er nú dottlið langt síðan við sýndum þetta. Við höfum reyndar misst einn liðsmann en hún Sylvía sviðsmaður er ekki meðal vor lengur. Hún er farin til síns heima sem er Pólland og er það mikill missir því þarna var um hörku sviðsmann að ræða. Ég hélt að það yrði erfitt að fá nýjan sviðsmann en nei...við erum komin með tvo sviðsmenn!!! Þeir Steinar Pálmi og Pétur ætla að fara í sokkana hennar Sylvíu.

Við kláruðum að þrífa Hallormsstað í gærkveldi og þegar ég kom heim horfði ég á borgarafundinn endursýndann. Mikið óskaplega var þetta leiðinlegt...Ég hélt reyndar í byrjun að þetta yrði skemmtilegt en um leið og Sigurjón byrjaði þá var þetta game over fyrir mig...og Helgi Seljan...hvað er málið með Helga Seljan...hann minnir mig á Soffíu frænku...en ég nenni ekki að tala um pólitík núna.

Ég er síðan að fara í sumarbústað með 26 tíundubekkinga. Förum inn í Einarsstaði og gistum þar í eina nótt. Þetta er sjötta og síðasta skiptið sem ég fer í svona ferð þar sem ég er að hætta í sumar sem forstöðumaður félagsmiðstöðva.

Í fyrradag fórum við Lóa að finna fyrir verk vinstra megin í mallakútnum. Við héldum að þetta væri einhver tvíburaveiki en við erum sem sagt tvíburar...eigum bæði afmæli 21. júní en það eru að vísu 13 ár á milli okkar. Í gær vorum við ennþá með þennan verk og fór Lóa til læknis...þá kom í ljós að þetta var egglosverkur!!! Það lítur ekki mjög vel út fyrir mig!!!

08 maí 2007

Nýtt líf

Jæja þetta fer allt ágætlega af stað. Ég byrjaði reyndar á því að gleyma passwordinu en ég er búinn að redda þessu...og ég held ég sé bara nokkuð góður í þessu...ég held ég sé bara nokkuð blogginn. Ég hef þegar fengið 3 gesti en það eru þær Dandý og Sigga Lára að ógleymdum góðvini mínum honum Nafnlaus en við höfum þekkst mjög lengi.

Ég, Fjóla og Eygló fórum inn í Hallormsstað í gærkveldi að þrífa herbergin. Við vorum svaka dugleg og náðum að klára herbergin á innan við 2 tímum!!! Svo fórum við leikararnir (Ég, Eygló og Lóa) í viðtal hjá RÚV og vorum búin þar um ellufuleytið í gærkveldi. Við hlustuðum síðan á viðtalið og þar var bara ágætt.

Dagurinn hefur síðan farið í að undirbúa sumarbústaðarferð sem ég er að fara í með 10. bekkinn á morgun. Einnig hefur maður náttúrulega verið að plana Þjóðleikhúsferð og æfingar fyrir það. Það eru 3 dagsetningar í boði en það er 31. maí, 3. júní og 7. júní. Verður ákveðið á fundi kveld hvaða dagsetning verður fyrir valinu.

Svo styttist nú óðum í kosningar og ég er skíthræddur um að ég gleymi að kjósa...flokkurinn má nú ekki við því. Ég hef ekkert náð að fylgjast með kosningabaráttunni en mér hefur fundist sem hún snúist aðalega um skoðanakannanir...mér finnst eins og þær hafi hreinlega drekkt baráttunni! En það er á brattann að sækja og hvert atkvæði gildir.

Well nóg í bili og eigið góðan dag:)

07 maí 2007

Frábær helgi

Jæja þá er ég byrjaður að blogga!!! Og það fyrsta sem ég blogga um er líka ekkert smá...ég er sem sagt að fara að leika í Þjóðleikhúsinu!!! Leikritið Listin að lifa var nebblega Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins:)

Já en helgin var annars svona:

- Héldum aðalfund BÍL sem tókst æðislega
- Hitti margt skemmtilegt fólk
- Var veislustjóri á hátíðarkvöldverðinum...kannski ekki alveg nógu góð hugmynd
- Athyglisverðasta áhugaleiksýningin
- Við Elísabet Freyvangsdóttir leiklásum hið frábæra verk Fröken Heppin...það fer í Þjóðleikhúsið á næsta ári
- Svaf lítið...eitthvað sem þarf að bæta á framtíðar BÍL þingum